Fólk stóð úr sætum og hyllti Hermann Ragnarsson eftir að hann gaf eiginkonu sinni flutning á laginu Ég vil fá mér kærustu í afmælisgjöf eins og Nútíminn greindi frá í dag og hefur vakið talsverða athygli.
Nútíminn setti sig í samband við Önnu Þóru Jónsdóttir, tengdadóttur Hermanns, sem sagði að margir hefðu fellt tár eftir flutning Hermanns í afmælinu. Afinn, Hermann Ragnarsson, gaf Sjöfn Bergmann, eiginkonu sinni, virkilega fallegan flutning á laginu Ég vil fá mér kærustu í afmælisgjöf þegar hún varð áttræð á dögunum. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.
Anna segir að Hermann hafi fundist hann verða að eignast kærustu eftir að hann heyrði Brynjólf Jóhannesson syngja lagið Ég vil fá mér kærustu á leiksýningu. „Nokkru síðar kynnist hann stúlku að vestan, Sjöfn Bergman, á balli og verður svona bálskotinn í henni enda uppfyllti hún alla kosti kærustunnar í laginu. Eftir þó nokkra eftirgangsemi þá gaf stúlkan honum séns og nú hafa þau verið hamingjusamlega gift í 57 ár,“ segir Anna.
„Þegar tengdamamma ákvað að halda upp á 80 ára afmælið sitt um daginn en hún er fædd 6. september 1937 þá langaði hann til að flytja henni þetta lag og það varð úr að ákveðið var að taka þetta upp.“
Dóttursonur Hermanns er Gunnar Ragnarsson söngvari i Gríslappalísu og hann kom afa sínum í hljóðver og sonur Hermanns, Ragnar Hermannsson, lék undir fyrir hann á gítar.
„Flutningurinn tókst alveg brilliant og það stóðu allir veislugestir úr sætum og hylltu hann að flutningi loknum, margir með tár á hvörmum. Þetta er alveg dásamlegur flutningur og yndisleg minning að eiga fyrir okkur í fjölskyldunni,“ segir Anna.