Freyja Haraldsdóttir, verkefnastýra og ráðgjafi hjá Tabú og varaþingkona Bjartrar framtíðar, gagnrýnir nýja kosningaauglýsingu Framsóknarflokksins harðlega. Í skilaboðum til flokksins sem hún birtir á Facebook spyr hún hvort flokknum finnist í lagi að nota fötlun sem smánun fyrir aðra flokka.
Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.
Auglýsingin hefur vakið mikla athygli en í henni er kosningunum stillt upp eins og fótboltaleik. Þulurinn er ekki sáttur þegar höltum bakverði Samfylkingarinnar og eineygðum er skipt inn á. „Hvað er þjálfarinn að spá að skipta út vinningsliðinu?“ spyr þulurinn.
Freyja bendir á að fötlun sé fyrst og fremst hluti af fjölmenningu og fjölbreytileika og spyr Framsókn hvort flokkurinn geri sér grein fyrir því hve mikil fötlunarfyrirlitning felist í auglýsingunni. „Eru þið virkilega svo illa að ykkur að þið vitið ekki að fötlun er ekki tákngerving hins lélega og þess sem ekki virkar?“ spyr hún.
Ég vona að þið áttið ykkur á að þessi auglýsing er hatursáróður sem getur hæglega stuðlað að auknu misrétti og ofbeldi fatlaðs fólks og er þar með brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem þið voruð einmitt að fullgilda fyrir nokkrum vikum síðan.
Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan.