Tónlistarmaðurinn Seth Sharp kláraði á dögunum ársbirgðir af kleinuhringjum á aðeins tíu mánuðum. Seth var einn af þeim sem beið í landsfrægri röð fyrir utan Dunkin’ Donuts á Laugavegi í ágúst í fyrra og fékk að launum klippikort sem veitti honum 52 kassa með sex kleinuhringjum — að jafnaði einn kassa á viku.
„Ég kláraði kortið í síðustu viku,“ segir Seth laufléttur í myndbandinu hér fyrir ofan. Hann kláraði ekki alla kleinuhringina einn og hefur verið duglegur við að deila með vinum sínum.
Afgreiðslumaðurinn sagðist vera leiður yfir því að þurfa að tilkynna mér að ég væri að fá síðasta kassann. Ég var bara: „Nei!“
Tugir biðu í röð fyrir utan Dunkin’ Donuts á Laugavegi þegar fyrsti staðurinn opnaði í fyrra. Á meðal þeirra voru Seth Sharp og Sindri Blær og fengu þeir kort sem veitti þeim fría kleinuhringi í heilt ár. Við hittum korthafana sem hafa notið þeirra forréttinda að borða fría kleinuhringi í tíu mánuði.
Sindri segist í samtali við Nútímann vera búinn að borða um 80 til 100 kleinuhringi á þessum tíu mánuðum. Hann segir kleinuhringjaátið ekki hafa haft áhrif á heilsu hans.
„Þetta hefur engin áhrif á mig. Það er sama hvað ég borða ég er alltaf sami pinninn,“ segir Sindri Blær. Hann sagði á sínum tíma í viðtali á mbl.is að kleinuhringjakortið væri gott til að brjóta ísinn á Tinder. Hann hefur þó ekki nýtt sér það mikið.
Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.