Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri hjá KSÍ, á þrjú börn og konan hans var að klára fæðingarorlof með yngsta barninu. Hann ákvað að fresta sínu fæðingarorlofi til að missa ekki af dagmömmuplássi fyrir barnið. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.
ASÍ og BSRB hafa tekið höndum saman um að krefja stjórnvöld um breytingar á fæðingarorlofskerfinu. Fólk er hvatt til að nota kassamerkið #betrafaedingarorlof til að deila sinni reynslu. „Mér finnst þessir níu mánuðir allt of stutt. Eiginlega bara fáránlega stutt,“ segir Kristinn í myndbandinu, sem er á vegum ASÍ og BSRB.
Það er ótrúlega skrýtið að vera með níu mánaða gamalt barn og þurfa að leita að dagmömmu — og eiginlega byrja á því áður en hún fæðist.
Fæðingarorlof Kristins verður því að passa inn í þetta flókna púsluspil sem hefst þegar foreldrar eru að reyna að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Þannig að núverandi fyrirkomulag gerir það að verkum að hann getur ekki farið í fæðingarorlof á þeim tíma sem hentar honum og fjölskyldunni best heldur þarf að taka mið af dagvistunarúrræðum.
Kröfurnar sem ASÍ og BSRB setja fram eru að greiðslur verði óskertar upp að 300 þúsund krónum, að hámarksgreiðslur verði 600 þúsund krónur og að fæðingarorlof verði 12 mánuðir.
„Markmið fæðingarorlofslaga er að börnum sé tryggð samvera við báða foreldra og að konum og körlum sé kleift að samræma fjölskyldu og atvinnulíf,“ segir í tilkynningu frá átakinu.
„Rannsóknir sýna að núverandi kerfi tryggir ekki að þetta markmið nái fram að ganga. Til dæmis hefur þátttaka feðra minnkað um 40% frá því fyrir hrun og fæðingartíðni er í sögulegu lágmarki. Það er því forgangsmál að endurbætur eigi sér stað og horft sé til framtíðar.
Þrátt fyrir ítrekaða umfjöllun um að búið sé að eyðileggja kerfið hefur ekki verið brugðist við. Við viljum vekja athygli á þeirri bágu stöðu sem fólk stendur frammi fyrir þegar það fer í fæðingarorlof.“
Kynntu þér málið á Facebook-síðu átaksins.