Ljóð eftir rapparann Kött Grá Pje er forgrunni í nýrri HeForShe herferð sem UN Women hleypti af stokkunum í dag. Sjáðu myndbandið sem Nútíminn frumsýnir hér fyrir ofan.
Markmið herferðarinnar er að hvetja fólk til þess að skrá sig á heforshe.is og þar með skuldbinda sig til að berjast gegn netníð sem og að tileinka sér ábyrga nethegðun, beita hvorki hatursfullri orðræðu né hóta ofbeldi á netinu.
Í myndbandinu hér fyrir ofan má sjá hvernig gróft kynbundið ofbeldi í garð kvenna og stelpna grasserar á spjallþráðum og kommentakerfum.
„Kött Grá Pje fór í rannsóknarleiðangur um netheima og safnaði saman grófum og rætnum athugasemdum ungs fólks sem á vegi hans urðu,“ segir í tilkynningunni.
Hann leitaði aðallega fanga á Kiwi (ASKFM), Youtube og Instagram. Athugasemdirnar sem blöstu við honum eru grófar og sýna vel það grimma og dulda kynbundna ofbeldi sem fram fer á netinu.
Í tilkynningunni kemur fram að netníð gegn konum og stelpum sé vaxandi samfélagsvandamál og að það hafi áhrif á fleiri konur en við gerum okkur grein fyrir.
„Það er margþætt og á sér ólíkar birtingarmyndir. Herferðin beinir sjónum fyrst og fremst að hatursfullum athugasemdum og hótunum í garð kvenna og stúlkna á netinu, stafrænu kynferðisofbeldi og eltingum/eftirliti þegar fylgst er með þolandanum m.a. með aðstoð GPS-tækni,“ segri í tilkynningunni.
„Þeirri orðræðu sem sýnd er í myndbandinu er ætlað að ögra og hreyfa við fólki. Öll þau ummæli sem fram koma í myndbandinu eru nú þegar á netinu og öllum aðgengileg. Þess má geta að herferðin var unnin í góðu samstarfi við Landsbankann sem er jafnframt bakhjarl herferðarinnar.“
Framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan sá um hugmyndavinnu og framleiðslu á verkefninu með Kött Grá Pje.
Ekki hata – skráðu þig núna á Heforshe.is