Það var mikið um dýrðir í Las Vegas í gærkvöldi þegar bardagakapparnir, Conor McGregor og Floyd Mayweather stigu á vigtina.
Niðurstaðan varð sú að þeir náðu báðir vigt. Conor var 153 pund eða rúmlega 69 kíló og Mayweather 149,5 pund eða tæp 68 kíló. Bardaginn fer fram í 154 punda ofurveltivigt.
Talið er að Conor muni þyngjast næsta sólarhringinn og vera í kringum 170 pund meðan Mayweather reiknar með að vera nær 150 pundum.
Þeir mættust svo augliti til auglitis á sviðinu og öskraði Conor framan í Mayweather nær allan tímann. Floyd lét sér fátt um finnast og þagði.
Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 01:00 að íslenskum tíma en bardagi Conor McGregor og Floyd Mayweather er síðasti bardagi kvöldsins. Áætlað er að hann hefjist milli 03:00 og 04:00 í nótt.