Kraftlyftingakonan Sóley Margrét Jónsdóttir gerði sér lítið fyrir og lyfti 240 kílóum í hnébeygju á Grétarsmótinu sem fram fór á Akureyri í gær. Sóley sem keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akureyrar er fædd árið 2001 og er ný orðin 16 ára.
Um met er að ræða en núverandi Evrópumet stúlkna í +84 kg flokki er 230 kíló. Metið fæst þó ekki skráð þar sem Grétarsmótið er ekki alþjóðlegt mót. Sóley lyfti einnig 120 kílóum í bekkpressu og 205 kílóum í réttstöðulyftu á mótinu.
Lyftan er sú þyngsta sem kona hefur tekið á Íslandi hingað til og nokkuð ljóst að þessi stelpa getur náð mjög langt í íþróttinni.