UN Women hefur hrint af stað neyðarsöfnun fyrir konur á flótta í Mosúl sem búa við hræðilegar aðstæður. Með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.490 kr.) veitir þú konu í Mosúl sæmdarsett með öllum helstu nauðsynjavörum á borð við dömubindi, sápu og vasaljós.
Í frétt á vef UN Women segir að konur í Mosúl og nærliggjandi svæðum hafa verið innilokaðar og einangraðar síðastliðin tvö ár eftir að vígasveitir sem kenna sig við íslamskt ríki náðu borginni yfir á sitt vald. Þær hafa þurft að þola gróft ofbeldi, verið teknar sem gíslar og kynlífsþrælar og giftar hermönnum vígasveitanna en margar hafa horfið sporlaust. Þær skortir mat og aðrar nauðsynjavörur og flýja nú borgina.
„Konur í Mosul eru í hræðilegri stöðu og eiga ekkert. Þær hafa verið innilokaðar heima hjá sér undanfarin tvö ár og hvorki mátt eiga né nota síma, snjallsíma, internet, horfa á sjónvarp né eiga eiga í samskiptum við umheiminn á nokkurn hátt. Þær hafa verið sviptar lífsviðurværi sínu, reisn sinni og valdi yfir eigin lífi. Neyðin er gríðarleg og nú er mikilvægara en nokkru sinni að að hlúa að þessum hópi,“ er haft eftir Ingu Dóru Pétursdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi.
UN Women vinnur að því að veita konum og stúlkum á svæðinu aftur rödd, lífsviðurværi, tilgang og aðstoða þær við að koma undir sig fótunum á ný. Nýlega var settur á fót griðastaður í búðum á Ninewa-svæðinu þar sem konur hljóta vernd og öryggi, áfallahjálp í kjölfar kynferðisofbeldis, sálrænan stuðning.
Inga Dóra segir að fyrsta skrefið sé að veita þeim sæmdarsett með helstu nauðsynjum sem gera konum kleift að halda í virðingu sína. Aftur á móti skortir fjármagn til að geta brugðist við neyðinni og haldið því áfram.