Auglýsing

Náði einstöku myndbandi af seinna marki Gylfa úr úkraínsku stúkunni: „Maður hefði viljað öskra af gleði“

Brjánn Jónsson, framkvæmdastjóri Símafélagsins, náði einstöku myndbandi af seinna marki Gylfa Þórs Sigurssonar í leik Íslands gegn Úkraínu á Laugardalsvelli í gær. Markið kom eftir laglegt samspil en það sem gerir myndbandið einstaklega skemmtilegt er að Brjánn stendur í hópi stuðningsmanna Úkraínu og það sést vel hvernig það slökknar á þeim þegar boltinn fer í netið. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.

„Gylfi þaggaði algerlega niður í öllum stuðningsmönnum Úkraínu þegar hann skoraði mörkin, eins og sést svo skemmtilega á myndbandinu,“ segir Brjánn í samtali við Nútímann.

Maður hefði viljað hoppa og öskra af gleði en þorði ekki annað en að birgja það algerlega inni í þessari pínlegu þögn sem fylgdi mörkunum.

Hann segist ekki hafa farið á landsleik síðan hann var smákrakki en bætir við að hann horfir alltaf á þá í sjónvarpinu. „Ég sleppi mér algerlega þegar vel gengur og stundum líka þegar illa gengur,“ segir Brjánn.

„Maður hefur oft hugsað um að fara á völlinn en eins og allir vita getur verið erfitt að fá miða. Ég er svo heppinn að eiga Úkraínska konu sem reddaði okkur miðum fyrir leikinn og við fengum þá einmitt afhenta í gær af landsliðinu sjálfu. Konan „gædaði“ liðið um bæinn í staðinn og fékk einstakt tækifæri til að spjalla við þjálfarann og leikmenn.

Brjánn segir að miðarnir í stúku andstæðinganna hafi gefið sér kærkomið tækifæri til að fara á leik og upplifa þetta um leið á allt annan hátt en flestir. „Ég komst allavega að því að ég get verið mjög yfirvegaður á landsleik, ólíkt því hvernig maður hagar sér í öruggu umhverfi heima!“ segir hann léttur.

Mikill viðbúnaður lögreglu við stúku stuðningsmanna Úkraínu vakti athygli á leiknum en Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði í Fréttablaðinu á þriðjudag að lögreglan hefði haft upplýsingar um vandræði sem fylgdu þeim. Hann sagði svo á Vísi að lögreglan hefði lagt hald á talsvert af grjóti sem einhverjir stuðningsmenn úkraínska liðsins ætluðu að taka með sér inn á völlinn. Einnig var lagt hald á einn hníf.

Brjánn lét fréttirnar af úkraínsku stuðningsmönnunum ekki trufla sig. „Nei alls ekki, maður hafði auðvitað vit á því að vera ekki að öskra af kátínu ef þarna væru einhverjir vitleysingar,“ segir hann.

„En fólkið í kringum okkur var bara venjulegt fólk að skemmta sér. Þarna var fólk með mjög ung börn og allir mjög prúðir. Það var eiginlega frekar ógnvekjandi að vera umkringdur 100 lögreglumönnum og maður sá að fólk var hissa á þessum viðbúnaði. En allir skemmtu sér vel og gæslunni í hliðinu tókst að taka frá þessa örfáu svörtu sauði sem ætluðu að skemma fyrir okkur hinum.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing