Auglýsing

Sagan á bak við sketsinn hans Björns Braga um veðrið: Rúmlega milljón áhorf á minna en viku

Þegar grínistinn Björn Bragi birti skets um veðrið á Íslandi á Facebook-síðu sinni í síðustu viku bjóst hann ekki við að sketsinn færi á flug og myndi ferðast um allan heim. Í dag er sketsinn kominn með rúmlega 1,4 milljón áhorf, deilingarnar eru komnar yfir 13 þúsund, athugasemdum frá öllum heimshornum rignir inn og hann er meira að segja búinn að fá beiðni frá Kína um að sketsinn yrði birtur með kínverskum texta.

Ef svo ólíklega vill til að þú sért ekki búin/n að horfa á sketsinn þá er hann hér fyrir neðan.

Eins og glöggir hafa tekið eftir þá er sketsinn tekinn upp í tvennu lagi, á tveimur mismunandi árstíðum. „Ég tók senurnar með góða veðrinu upp í ágúst í fyrra, þegar það var þvílík sól úti og allt grænt. Restina tók ég svo upp um daginn þegar það var allt á kafi í snjó hérna,“ segir Björn Bragi í samtali við Nútímann.

Framleiðslan var ekki umfangsmikil en Björn tók sketsinn upp á símann sinn. „Mér fannst þetta bara fyndin pæling og tók upp sólarskotin og geymdi. Svo þegar það var allt á kafi í snjó hugsaði ég að nú yrði ég að klára hann,“ segir hann.

En það var alls ekki pælingin að þetta ætti að fara á eitthvað flug erlendis. Þegar ég sá það bætti ég við möguleikanum á að horfa á þetta með enskum texta.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og Björn segir að flest áhorf utan Íslands komi frá Englandi, Finnlandi, Póllandi og Eistlandi. „Sem sagt að miklu leyti frá löndum sem kannast við að þurfa að bíða eftir að sólin láti sjá sig. Og ég tók eftir því að mörg kommentin eru einmitt á þá leið að þetta sé nákvæmlega eins á hinum og þessum stöðum í heiminum,“ segir hann.

Kínverjar hafa einnig haft samband og óskað eftir því að fá að birta sketsinn á vefmiðlum í Kína með kínverskum texta.

Björn kemur ekki einn fram í sketsinum en ásamt tveimur vönum leikkonum náði hann að plata pabba sinn til að vera með. „Meðleikarar eru systurnar Kolfinna og Viktoría, sem eru miklir snillingar og frábærar leikkonur. Ég hef oft fengið þeir til að vera með í einhverju gríni hjá mér,“ segir hann.

„Svo tókst mér að plata pabba minn í að vera crazy old man og hann leysti það svona líka fáránlega vel.“

Björn Bragi hefur áður birt stutta sketsa á Facebook-síðu sinni en er velgengni þessa skets að fara að hvetja hann til að gera meira og jafnvel meira sem höfðar til útlendinga jafnt sem íslendinga?

„Það stendur algjörlega til að búa til meira grín og framundan eru spennandi verkefni tengd gríni. Það er alltaf fyrst og fremst hérna heima og á íslensku en auðvitað er ekkert leiðinlegt ef það leynist eitthvað inn á milli sem höfðar til fólks erlendis.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing