Arnar Björnsson þóttist vera 13 ára stúlka á Tinder og hitti 39 ára gamlan karlmann sem taldi sig vera að hitta stúlkuna. Hann birti myndband af fundinum á Facebook og hefur það vakið gríðarlega athygli. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.
„Ég ákvað að gera Tinder-aðgang til að sjá hvernig umhverfið á samfélagsmiðlum er fyrir unga stúlku á Íslandi,“ segir hann í færslu með myndbandinu á Facebook.
Ég var í algjöru sjokki eftir öll þessi ógeðslegu skilaboð sem ég fékk, meðal annars frá fullorðnum mönnum.
Arnar segir að maðurinn í myndbandinu, sem hann hvorki myndbirtir né nafngreinir, hafi komið til að hitta 13 ára stúlku. „Ég tók samtalið uppá myndband. Foreldrar ættu að hafa auga með því sem börnin þeirra eru að gera á netinu,“ segir hann.
Maðurinn reyndi að afsaka sig með því að vera einmana og reyndi að þræta fyrir tilgang sinn með því að hitta „stúlkuna“.