Um hvað snýst málið?
Fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur kært einn mann til lögreglu fyrir að dreifa ólöglega höfundarréttarvörðu efni sem framleitt var fyrir fyrirtækið.
Hvað er búið að gerast?
365 sendi frá sér tilkynningu og greindi frá kærunni. Þar kom fram að fyrirtækið hefði fengið sérhæfð fyrirtæki til þess að fylgjast grannt með IP-tölum þeirra sem hlaði íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar síður og dreifiveitur.
Um er að ræða samstarf 365 og Frísk, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði. Markmiðið er að stöðva dreifinguna.
365 fær upplýsingar frá FRÍSK um hverjir hafi sett efni sem framleitt hefur verið fyrir fyrirtækið með ólögmætum hætti á netið.
Forstjóri 365 segir að allt bendi til þess að maðurinn sem kærður hefur verið hafi ítrekað gert íslenskt efni aðgengilegt á þessum síðum.
Hann segir einnig að fyrirtækið sé í fullum rétti til að láta fylgjast með IP-tölum þeirra sem hlaða íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar dreifiveitur.
Síðar mun koma í ljós hvort og þá hversu háar skaðabætur fyrirtækið mun fara fram á vegna málsins
Hvað gerist næst?
Persónuvernd ætlar að skoða hvort eftirlitið standist lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ.e. hvort fyrirtækið hafi heimild til að safna þessum upplýsingum.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.