Um hvað snýst málið?
Jón Gnarr birti mynd á Twitter þar sem sást í listaverk eftir breska götulistamanninn Banksy. Í samtali við Fréttablaðið sagði Jón að verkið væri persónuleg gjöf til hans frá Banksy. Strangar reglur gilda um gjafir til kjörinna embættisfulltrúa en Jón sagði að gjöfin hafi aldrei tengst embætti borgarstjórans.
Hvað er búið að gerast?
Eftir að Jón ræddi málverkið í fjölmiðlum fóru í gang miklar umræður um lagalega hlið slíkra gjafa. Pawel Bartozek og Snæbjörn Brynjarsson eru á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Jón á meðan aðrir telja málið vera storm í vatnsglasi. Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is að ljóst væri að verkið ætti að flokka sem skattskylda gjöf.
Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að það megi áætla að verkið sé hæglega milljóna virði miðað við sölu- og uppboðsverð á eftirprentunum víða á netinu. Þar kemur einnig fram að Jón hafi aldrei látið verðmeta verkið.
Jón gerði sjálfur lítið úr fréttunum í færslu á Facebook síðu sinni. Hann segir þær getgátur um að verkið sé margra milljóna virði ekki byggðar á neinum rökum og að þetta sé í raun „bara plaggat“.
„Ég vil taka það fram að ég er enginn listfræðingur. Ég hef ekkert vit á því hvernig listaverk eru metin en þetta er það sem mér finnst og hefur alltaf fundist. Þetta er bara plaggat sem ég fékk kurteysislegt leyfi frá listamanninum sem gerði það bara af því að ég ber svo mikla virðingu fyrir honum. En þetta er samt bara plaggat.“
Hvað gerist næst?
Reykjavíkurborg hefur engin áform uppi um að kalla eftir verkinu til baka en þetta kemur fram í svari frá Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar á Vísi.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu