Um hvað snýst málið?
Bretar eru á leiðinni úr Evrópusambandinu (ESB) samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Tæp 52% vildu ganga úr Evrópusambandinu og rétt rúmlega 48% vildu vera áfram.
Hvað er búið að gerast?
Niðurstöðurnar sýna að yngri kjósendur vildu vera áfram í ESB á meðan þeir eldri vildu yfirgefa sambandið.
Þá sýna úrslitin mikla skiptingu milli svæða í Bretlandi. Í Skotlandi, á Norður-Írlandi og í höfuðborginni London var yfirgnæfandi meirihluti kjósenda fylgjandi því að halda áfram í ESB. Fyrir utan London var meirihluti fyrir því að yfirgefa ESB.
Úrslitin höfðu strax veruleg áhrif á markaði. Sterlingspundið hefur hrunið og er nú lægra en það verið hefur í yfir 30 ár.
David Cameron ætlar að láta af embætti forsætisráðherra Bretlands eftir þrjá mánuði, á flokksþingi Íhaldsflokksins í október.
Hvað gerist næst?
Afleiðingar niðurstöðunnar eru ófyrirsjáanlegar enda hefur ekkert ríki áður sagt sig úr ESB. Ljóst er að ferlið að yfirgefa ESB mun taka nokkur ár.
Talið er líklegt að Skotar krefjist nýrrar þjóðaratkvæðugreiðslu um að segja skilið við Bretland og að vera áfram í Evrópusambandinu.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.