Um hvað snýst málið?
Byggingafélagið Þak hefur sett tíu litlar stúdíóíbúðir í fjölbýlishúsi í Kópavogi á sölu. Með því að taka lán hjá félaginu og hjá banka getur kaupandi samtals tekið 95% lán.
Þau sem kaupa íbúð þurfa því aðeins að borga 5% af verði íbúðarinnar við kaupin.
Hvað er búið að gerast?
Bankar bjóða þeim sem eru að kaupa fasteign í fyrsta skipti hærra lán en öðrum. Íslandsbanki býðst til að lána 90% af kaupverði íbúðar en Arion banki og Landsbankinn 85%.
Mikið hefur verið rætt um að fólk eigi erfitt með að kaupa íbúð þar sem það þarf að eiga nokkrar milljónir í útborgun þegar það tekur lán. Félagið Þak vill gera þetta auðveldara.
Íbúðirnar eru 29 til 47 fermetrar að stærð og kosta á bilinu 15,9 til 23,9 milljónir króna.
Ef kaupandi tekur 95% lán fyrir minnstu íbúðinni þarf hann að eiga 795 þúsund krónur í útborgun. Hann þarf að greiða 90 þúsund krónur af láninu í hverjum mánuði næstu sjö árin en minna eftir það.
Ef kaupandi tekur 95% lán fyrir stærstu íbúðinni þarf hann að eiga 1,15 milljón króna í útborgun. Hann þarf að greiða 140 þúsund krónur af láninu í hverjum mánuði næstu sjö ári en minna eftir það.
Hvað gerist næst?
Talsmaður byggingafélagsins segir að fleiri félög hafi í hyggju að bjóða sama eða svipað lánshlutfall.
Ef vel gengur ætlar Þak að byggja fleiri íbúðir sem verða seldar á þessum kjörum.