Auglýsing

Örskýring: Eldsvoði í fjölbýlishúsinu Grenfell Tower í London

Um hvað snýst málið?

Að minnsta kosti sex eru látnir og fleiri en fimmtíu manns eru slasaðir eftir að eldur kom upp í tuttugu og fjögurra hæða fjölbýlishúsi í vesturhluta London í Bretlandi í nótt.

Hvað er búið að gerast?

Eldur kom upp í húsinu Grenfell Towter rétt eftir miðnætti að staðartíma í nótt og breiddist gríðarlega hratt út. Talið er að eldurinn hafi kviknað á fjórðu hæð hússins og að nokkur hundruð manns hafi verið í húsinu.

Fleiri en 200 slökkviliðsmenn komu á staðinn og hafa barist við eldinn í alla nótt. Margir þeirra eru enn að störfum og eru þeir nú komnir upp á tuttugustu og fyrstu hæð hússins.

Töluverðar umbætur hafa verið gerðar á húsinu síðustu ár og lauk þeim í fyrra. Íbúar hafa þó lýst yfir óánægju sinni með brunavarnir og aðkomu neyðarbíla að húsinu.

Vitni hafa sagt frá því að þau hafi séð fólk sem sé enn fast inni í byggingunni. Það hafi öskrað á hjálp, beðið um að börnunum þeirra yrði bjargað og jafnvel kastað sér út um glugga.

Hvað gerist næst?

Slökkviliðsmenn halda áfram að reyna að slökkva eldinn og bjarga íbúum úr húsinu. Fjölbýlishúsið virðist að hruni komið. Margra er saknað og á eftir að koma í ljós hvort þeir séu enn á lífi.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing