Um hvað snýst málið?
Að minnsta kosti sautján manns eru látnir eftir stórbruna í Grenfell-turninum í London í Bretlandi.
Hvað er búið að gerast?
Eldur kom upp í fjölbýlishúsinu rétt eftir miðnætti að staðartíma í gær. Mörg hundruð manns bjuggu í húsinu og voru flest þeirra sofandi. Þau sem lifðu af hafa talað um að brunavarnakerfi hússins hafi ekki farið í gang og því hafi þau ekki vaknað við læti frá reykskynjurum, heldur við nágranna og hávaða að utan.
Fleiri en tvö hundruð slökkviliðsmenn komu á staðinn og börðust við eldinn í margar klukkustundir. Slökkviliðsstjóri í London segir að þetta sé erfiðasta verkefni sem margir þeirra hafi tekist á við. Það hafi verið þeim mjög erfitt að vita af fólki í brennandi húsinu en komast ekki til þeirra.
Upptök eldsins eru enn óþekkt en talið er að kviknað hafi í á fjórðu hæð hússins. Athygli hefur vakið hversu fljótur eldurinn var að breiðast um húsið. Klæðning þess var endurnýjuð árið 2015 og er talið hugsanlegt að gerð hennar hafi gert það að verkum að eldurinn var mjög fljótur að breiðast út.
Þrjátíu og sjö manns eru enn á spítala þar sem hlúð er að þeim eftir brunann. Sautján þeirra eru alvarlega slasaðir.
Byggingin er að hruni komin og aðstæður til björgunarstarfs afar erfiðar. Ekki er gert ráð fyrir að fleiri finnist á lífi í húsinu. Björgunarhundar voru sendir inn í bygginguna í morgun í von um að finna og staðsetja lík.
Hvað gerist næst?
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið því ítarleg rannsókn verði gerð á brunanum.
Haldið verður áfram að leita í byggingunni.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.