Auglýsing

Örskýring: Hvað er hrútskýring?

Um hvað snýst málið?

Hrútskýring er íslensk þýðing á enska hugtakinu mansplaning sem er sett saman úr orðunum man og explaning, eða karlmaður og að útskýra.

Hugtakið, sem er sett saman úr orðunum hrútur og útskýra, er notað yfir það þegar einhver útskýrir eitthvað fyrir einhverjum á yfirlætisfullan og lítillækkandi hátt, oftar en ekki konu, líkt og viðkomandi viti ekkert um málið.

Hrútar eru oft notaðir sem vísun í karlmenn. Í pólitík er til dæmis stundum talað um „hrútalykt“ þegar nefnd er aðeins skipuð karlmönnum.

Hvað er búið að gerast?

Notkun orðsins hefur farið vaxandi síðustu mánuði.

Talið er að orðið hafi fyrst verið notað árið 2008, skömmu eftir að feminíski rithöfundurinn Rebecca Solnit fjallaði um hugtakið í bloggfærslu sinni. Hún notaði ekki orðið heldur lýsti fyrirbærinu.

Mánuði síðar var orðið mansplaning notað yfir fyrirbærið sem Solnit lýsti í athugasemd á samfélagsmiðlinum LiveJournal og hefur notkun þess farið vaxandi síðan.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var sagður hafa hrútskýrt fyrir Björt Ólafsdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, þegar þau voru gestir í Morgunútvarpi Rásar 2 nýlega.

Þau greinir á um hvort samþykkja eigi nýtingarflokk rammaáætlunar fyrir þinglok en það vill Jón gera. Hann gekk of langt að mati Bjartar þegar hann gaf í skyn að hún hefði ekki kynnt sér málið nógu vel en það þyrfti að gera í svo mikilvægum málum.

Björt mótmælti þessu og sagðist ekki vera ósammála honum vegna þekkingarleysis á efninu, heldur vegna ólíkrar stefnu Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar í málinu.

Hvað gerist næst?

Orðinu mansplaning var bætt í netútgáfu Oxford-orðabókarinnar árið 2014.

Orðið hrútskýring er ekki í íslenskri orðabók.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing