Um hvað snýst málið?
Skýrslu sem meirihluti fjárlaganefndar kynnti í gær og kallast: „Einkavæðing bankanna hin síðari“.
Þar eru lagðar fram ásakanir um að Steingrímur J. Sigfússon, embættismenn og sérfræðingar hafi afhent kröfuhöfum tvo nýja banka árið 2009 til að friðþægja þá. Með þessu hafi ríkissjóður tekið á sig 296 milljarða króna áhættu í þágu kröfuhafa.
Hvað er búið að gerast?
Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, sem stýra fjárlaganefnd, héldu blaðamannafund í gær þar sem þau kynntu skýrsluna.
Í fréttatilkynningu segir að skýrslan taki „af allan vafa um áhættu skattgreiðenda sem átti sér stað við afhendingu bankanna til kröfuhafa.[…]Ekki verður önnur ályktun dregin en að samningagerðin hafi að stórum hluta gengið út á að friðþægja kröfuhafanna með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum.“
Ekki hafa fengist upplýsingar um hverjir unnu að gerð skýrslunnar en Vigdís og Guðlaugur greiddu sjálf 90 þúsund krónur í kostnað vegna hennar.
Ásakanir skýrsluhöfunda eru þær sömu og Víglundur Þorsteinsson hefur borið á torg þrívegis á undanförnum árum. Þeim ásökunum hefur verið hafnað af öllum sem þær beinast að, fjármálaráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og í skýrslu sem Brynjar Níelsson vann fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Hvað gerist næst?
Skýrslan verður kynnt og rædd í fjárlaganefnd á fundi hennar á morgun. Frekari umfjöllun um hana liggur ekki fyrir.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Þetta er svokölluð gestaörskýring frá Kjarnanum. Smelltu hér til að lesa fréttaskýringu Kjarnans um málið.