Um hvað snýst málið?
Harpa og Sigur Rós hafa rift samningum við tónleikahaldarann Kára Sturluson. Tilraunir til að endurheimta 35 milljónir króna, sem Kári fékk greiddar fyrirfram af miðasölu tónleika Sigur Rósar í Hörpu, hafa reynst árangurslausar.
Hvað er búið að gerast?
Hljómsveitin Sigur Rós heldur ferna tónleika í Hörpu í lok desember og miðasala á tónleikana hefur gengið vel.
Kári Sturluson fékk 35 milljóna króna fyrirframgreiðslu af miðasölu tónleikanna hjá forstjóra Hörpu, Svanhildi Konráðsdóttur. Samkvæmt frétt RÚV komu þau tíðindi flatt upp á talsmenn Sigur Rósar í Bretlandi.
Í kjölfarið riftu Sigur Rós og Harpa samningum við fyrirtæki Kára. Í yfirlýsingu Hörpu og Sigur Rósar kemur fram að Kári hafi ekki orðið við ítrekuðum kröfum um endurgreiðslu.
Harpa hefur höfðað mál á hendur Kára og stefnt honum til að greiða 35 milljónirnar til baka. Til tryggingar kröfunni hefur Harpa farið fram á kyrrsetningu á eignum Kára. Sena Live hefur tekið við sem ábyrgðaraðili tónleikanna.
Steinbergur Finnbogason, lögmaður Kára, segir engar vanefndir hafa orðið á samningum milli hans og Sigur Rósar. Hann segir að sem tónleikahaldara hafi Kára verið heimilt að ráðstafa tekjum af miðasölu að vild.
Hvað gerist næst?
Riftun á samningum við Kára koma honum í opna skjöldu. Hann skoðar nú rétt sinn til bóta ásamt því að íhuga að fara fram á lögbann á tónleikana þar sem viðburðurinn sé í grunninn hugarsmíð hans.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.