Um hvað snýst málið?
Þingmenn allra flokka nema VG hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund.
Seinkunin væri í gildi allt árið en í greinargerð frumvarpsins kemur fram að það komi til greina að klukkunni verði einungis seinkað yfir vetrartímann. Þá yrði sérstakur sumartími, líkt og í mörgum löndum, til að mæta sjónarmiðum um meiri sól síðdegis á sumrin.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að miðað við gang sólar er klukkan á Íslandi rangt skráð:
Síðan 1968 hefur klukkan á Íslandi verið stillt á sumartíma allt árið og er því klukkutíma of fljót miðað við legu landsins sem leiðir til þess að ljósaskiptum seinkar, bæði dagrenningu og kvöldi.
Þá kemur fram að ef tillagan nær fram að ganga gæti það orðið til þess að bæta líðan þjóðarinnar, laga svefnvenjur og jafnvel orðið til þess að spara útgjöld í heilbrigðiskerfinu þar sem Íslendingar noti margfalt meira af svefn- og þunglyndislyfjum en nágrannaþjóðir.
Erla Björnsdóttir sálfræðingur fjallar um málið hér.
Hvað er búið að gerast?
58 prósent landsmanna voru hlynnt því að seinka klukkunni um eina klukkustund, þegar það var kannað í febrúar. Meirihluti var fyrir breytingunni í öllum aldurshópum.
Hvað gerist næst?
Frumvarpið á langa leið á Alþingi fyrir höndum. Óvíst er hvort það komist á dagskrá.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.