Um hvað snýst málið?
Nægilega mörgum undirskriftum hefur verið safnað á vefsíðu leigubílaþjónustunnar Uber til þess að fyrirtækið geti hafið starfsemi í Reykjavík. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá málinu.
Uber á enga bíla og engir bílstjórar starfa hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið tengir farþega og almenna ökumenn saman í gegnum app. Þar er hægt að panta bíl, fylgjast með staðsetningu hans og ganga frá greiðslu.
Fyrirtækið vex hratt og er nú hægt er að nálgast þjónustuna í fleiri en 250 borgum um allan heim.
Hvað er búið að gerast?
Nú er nú hægt að skrá sig sem bílstjóra í Reykjavík á vef Uber.
Ástgeir Þorsteinsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama, segir í samtali við mbl.is að fyrirkomulagið fari gegn gildandi lögum:
Það gilda hér ákveðin lög um leigubifreiðar og það er ekkert hægt að fjölga þeim ef manni dettur í hug en þá er spurning hvort þetta fari út í ólöglega starfsemi.
Hvað gerist næst?
Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir í frétt mbl.is að ekki sé gert ráð fyrir þjónustu sem Uber samkvæmt núgildandi lögum, nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
„Lögin snúast um leyfisskyldan atvinnuakstur þar sem bæði leigubílastöð og bílstjóri þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði og hafa fengið úthlutuðu leyfi,“ segir hún.
Uber er nú starfandi í 52 löndum og þar á meðal hinum Norðurlöndunum.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.