Um hvað snýst málið?
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál sem leiða má beint af tálbeituaðgerð Jóhannesar Gísla Eggertssonar. Þetta kemur fram á Vísi.
Hvað er búið að gerast?
Jóhannes átti samskipti við fullorðinn mann á internetinu í hlutverki stúlku undir lögaldri. Hann fékk manninn til að hitta sig og birti svo myndband á Facebook sem sýndi hann ræða við manninn um ástæðurnar fyrir því að hann vildi hitta ungu stúlkuna.
Myndbandið vakti gríðarlega athygli á Facebook. Þegar þetta er skrifað eru áhorfin orðin 176 þúsund og deilingarnar fleiri en 2.600.
Aðferð Jóhannesar þykir hins vegar umdeilanleg. Í umfjöllun á Vísi kemur fram að misjafnt sé hvort sönnunargögn sem aflað var með notkun tálbeitu hafi þýðingu fyrir dómstólum. „Þar vegur þyngst hvort tálbeitan hafi beinlínis kallað fram brot sem annars hefði ekki verið framið. Í þeim tilvikum er tilhneigin dómstólanna til að sýkna hinn ákærða,“ segir þar.
Þá segir Karólína Finnbjörnsdóttir, lögmaður og kennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í meistararitgerð sinni að notkun tálbeitu á netinu við rannsókn sakamála vekji upp ógrynni af áleitnum spurningum sem lúta að réttaröryggi sakbornings og rétt hans til réttlátrar málsmeðferðar.
„Það er bara spurningin um hvernig við viljum hafa samfélagið okkar. Viljum við sleppa því að hafa hér dómskerfi, ákæruvald og annað og gera þetta allt rafrænt? Færa lögreglunni eða bara einhverjum einkaaðilum góðan síma með góðri myndavél þar sem við erum bara að afhjúpa glæpamenn í beinni? Þannig værum við búin að fá nafnið á þeim og myndina og getum gúglað hvar þeir eiga heima o.s.frv. Þetta er bara spurning um hvað fólk vill,“ segir Karólína á Vísi.
Hvað gerist næst?
Jóhannes segir í færslu á Facebook að næst ætli hann að blörra fyrir andlitið á því myndskeiði sem almenningur fær og svo afhenta lögreglu upprunalega myndbandið.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.