Um hvað snýst málið?
Níu konur hafa stigið fram í vikunni og greint frá því að Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, hafi beitt þær kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.
Hvað er búið að gerast?
Vefur dagblaðsins The Washington Post birti gamla upptöku þar sem Trump segist komast upp með allt vegna frægðarinnar, meðal annars að grípa konur í píkurnar.
Vefur dagblaðsins New York birti sögur tveggja kvenna sem segja Trump hafa áreitt þær kynferðislega. Önnur segir Trump hafa lyft stólbrík á milli þeirra í flugvél, þar sem þau sátu hlið við hlið og byrjað að þukla á sér.
Hin rakst á Trump í lyftu. Þau tókust í hendur en Trump sleppti ekki heldur kyssti hana á kinnarnar og síðan beint á munninn.
Eftir þetta hafa sjö konur til viðbótar stigið fram og greint frá áreitni af svipuðum toga.
Trump segir ekkert hæft í ásökunum kvennanna og hann hafi aldrei gert það sem hann hafi sagt í myndbandinu. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á Twitter segir hann sögurnar hugarburð sem settur sé fram til að afvegaleiða kjósendur. Enginn beri meiri virðingu fyrir konum en hann.
Hvað gerist næst?
Kosið verður um næsta forseta Bandaríkjanna 8. nóvember.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.