Um hvað snýst málið?
Guðmundar- og Geirfinnsmálið er viðamikið sakamál, kennt við Geirfinn Einarsson og Guðmund Einarsson. Þeir tengjast ekki þrátt fyrir að bera sama föðurnafn. Það eina sem tengir þá saman eru sakborningar málsins.
Hvað er búið að gerast?
Árið 1980 voru sex ungmenni dæmd til fangelsisvistar fyrir að hafa orðið tveimur mönnum að bana.
Lík mannanna hafa aldrei fundist og byggðist dómurinn því á öðrum sönnunargögnum, meðal annars játningum sem síðar voru dregnar til baka. Talið er að játningarnar hafi verið fengnar fram með pyntingum. Þá hafa rannsóknaraðferðir lögreglunnar verið gagnrýndar.
Sævar Ciesielski var dæmdur í sautján ára fangelsi og Kristján Viðar Viðarsson í sextán ára, Tryggvi Rúnar Leifsson var dæmdur í þrettán ára fangelsi og Guðjón Skarphéðinsson í tíu ára fangelsi. Erla Bolladóttir var dæmd í þriggja ára fangelsi og Albert Klahn Skaftason í árs fangelsi.
Endurupptökunefnd mælti í fyrra með því að mál Sævars Ciesielskis, Tryggva Rúnars Leifssonar, Alberts Klahns Skaftasonar og Guðjóns Skarphéðinssonar verði tekin upp á nýjan leik.
Hvað gerist næst?
Ragnar Aðalsteinsson, einn verjenda sakborninga í Guðmundar og Geirfinnsmálinu, segir að nýjar vísbendingar sem fram koma í óútgefinni bók blaðamannsins Jóns Daníelssonar sanni sakleysi Sævars Ciesielski og þar með annarra sem blönduðust inn í málið.
Netflix er stærsti einstaki fjármögnunaraðili heimildarmyndar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem Sagafilm vinnur nú að. Til stendur að frumsýna myndina á fyrstu mánuðum næsta árs.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.