Auglýsing

Örskýring: Öll fjármagnshöft afnumin — hvað þýðir það fyrir mig sem manneskju?

Um hvað snýst málið?

Frá og með næsta þriðjudegi verður reglum breytt þannig að fjármagnshöft verða afnumin á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði. Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag þar sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Már Guðmundsson seðlabankastjóri fóru yfir stöðuna.

Hvað er búið að gerast?

Málið snýst um að losa um hörð og umfangsmikil höft á fjármagnshreyfingum einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi, sem hafa verið í gildi frá því í lok nóvember 2008.

Til að losa um höftin þurfti Seðlabankinn að semja um kaup á svokölluðum aflandskrónum sem eru að mestu í eigu erlendra aðila. Höftin gerðu þessum aðilum ómögulegt að flytja aflandskrónurnar úr landi þar sem upphæðirnar voru svo háar að slíkt hefði getað skapað mikil vandræði fyrir fjármálakerfið.

Á fundinum í dag kom fram að aflandskrónureigendum hafi verið boðið að borga 137,5 krónur fyrir hverja evru og að eigendur 90 milljarða króna hafi samþykkt tilboð Seðlabankans en að eigendur 105 milljarða hafi ekki ennþá samþykkt tilboðið.

Í fyrra bauð Seðlabankinn aflandskrónueigendunum að greiða 190 krónur fyrir hverja evru. Þeir sem höfnuðu tilboðinu þá en taka tilboðinu í dag hagnast því á þeirri ákvörðun og greiða nú um 38 prósent minna fyrir hverja evru.

Íslensk stjórnvöld sögðust ætla að geyma peninga þeirra sem myndu ekki taka fyrra tilboði Seðlabankans á vaxtalausum reikningum í refsingarskyni. Kjarninn greinir hins vegar frá því að batnandi efnahagur landsins hafi orðið til þess að erfitt hefði getað reynst fyrir stjórnvöld að réttlæta slíkt.

Hvað gerist næst?

Óvíst er hvaða áhrif afnám hafta hefur á gengi krónunnar. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, vonar að afnámið leiði til lægri vaxta. Fjármagnsflæði að og frá landinu verður gefið frjálst. Einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir munu því geta fjárfest erlendis án takmarkana.


Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing