Um hvað snýst málið?
Árið 2011 taldi Samkeppniseftirlitið að Vífilfell hafi í krafti markaðsráðandi stöðu brotið samkeppnislög með því að gera hundruð samninga við viðskiptavini um að þeir kaupi ekki aðra gosdrykki en þá sem Vífilfell framleiðir.
Úrskurð Samkeppniseftirlitsins má finna hér.
Hvað er búið að gerast?
Vífilfell var sektað 260 milljónir króna en sektin var síðar lækkuð í 80 milljónir af áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
Þremur árum síðar, miðvikudaginn 9. október s.l., staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms um að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Ríkið þarf því að endurgreiða Vífilfelli sektina.
Samkeppniseftirlitið hafði sett hömlur á samningagerð Vífilfells við verslanir og veitingastaði. Ölgerðin samdi t.d. við kvikmyndahús, Subway og fleiri aðila um að bjóða upp á Pepsi í staðinn fyrir Coke.
Jón Viðar Stefánsson, markaðsstjóri Vífilfells, sagði í samtali við DV í janúar að Vífilfelli hafi verið settar skorður lagalega hvað varðaði samkeppnislög. „Og gat Vífilfell á þessum tíma ekki komið til móts við óskir þessara fyrirtækja,“ sagði hann.
Hvað gerist næst?
Í tilkynningu frá Vífilfelli eftir að úrskurðurinn var felldur úr gildi kom fram að fyrirtækið vænti þess að málið sé að baki: „Og við hlökkum til að geta tekið þátt í samkeppni á jafnræðisgrundvelli,“ segir í tilkynningunni.
Samkeppniseftirlitið útilokar hins vegar ekki að Vífilfell verði rannsakað á ný.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um flókin mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú vilt að við örskýrum fleiri mál.