Um hvað snýst málið?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ásamt verkefnisstjórn um höfuðstólsleiðréttingu, kynntu í dag niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar á fundi í Hörpu.
Hvað er búið að gerast?
Skuldaleiðréttingafrumvörp ríkisstjórnarinnar voru kynnt í mars og samþykkt sem lög frá Alþingi í maí.
Aðgerðin er fjármögnuð með hækkun bankaskatts og afnámi á undanþágu þrotabúa gömlu bankanna frá skattinum.
Á blaðamannafundinum í Hörpu kom meðal annars fram að skuldir heimilanna muni lækka um tuttugu prósent að meðaltali og að afskriftin mun fara fram á rúmu ári í stað fjögurra líkt og upphaflega var gert ráð fyrir og verður að fullu lokið í ársbyrjun 2016 í stað ársloka 2017.
Leiðréttingin lækkar höfuðstól íbúðalána um 150 milljarða króna á næstu 3 árum og við fullnýtingu leiðréttingar lækkar höfuðstóll íbúðalána um allt að 20%, samkvæmt tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins:
Með beinu og óbeinu framlagi ríkisins er öll verðbólga umfram 4% á árunum 2008-2009 leiðrétt til fulls. Eiginfjárstaða 56.000 heimila styrkist með beinum hætti og um 2500 heimili færast úr því að eiga ekkert eigið fé í fasteign sinni yfir í jákvæða eiginfjárstöðu.
Stjórnarandstaðan á Alþingi virðist vera sammála um að ríkisstjórnin sé ekki að forgangsraða rétt.
Hvað gerist næst?
Hver og einn getur kynnt sér niðurstöðu höfuðstólslækkunar lána sinna á leidretting.is frá og með 11. nóvember.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.