Um hvað snýst málið?
Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir, 18 ára þroskaskert stúlka, fannst á miðvikudagskvöld í læstri bifreið á vegum ferðaþjónustu fatlaðra eftir að hafa dvalið þar í sjö klukkutstundir.
Hvað er búið að gerast?
Sigtryggur Magnússon, framkvæmdastjóri All Iceland Tours, sem ekur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra segir á mbl.is að Ólöf hafi farið út úr bílnum við Hitt húsið en hlaupið inn í hann aftur og líklega falið sig.
Eftir að bílstjórinn fór frá Hinu húsinu ók hann með fjölda fólks en varð að sögn Sigtryggs ekki var við Ólöfu. Að lokum lagði hann bílnum fyrir utan heimili sitt. Ólöf fannst ekki fyrr en honum barst símtal um leitina og hann athugaði bílinn.
Pétur Gunnarsson, faðir stúlkunnar, segir á mbl.is að lýsingar Sigtryggs standist ekki skoðun. Ólöf kann ekki og hefur aldrei losað sig úr öryggisbelti. Þá getur hún heldur ekki spennt öryggisbelti sjálf. Loks ítrekar hann að hún hleypur aldrei burt.
Strætó hefur beðist afsökunar og rannsókn á málinu er hafin.
Hvað gerist næst?
Búið er að skipa neyðarstjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðra hjá Strætó til að fara yfir málið.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur óskað eftir því að borgarstjórinn í Reykjavík komi á hennar fund.
Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir aukafundi í velferðarnefnd Alþingis vegna mála sem komið hafa upp í tengslum við ferðaþjónustu fatlaðra.
Málið verði rætt í borgarráði að beiðni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.