Um hvað snýst málið?
Fréttastofa 365 og Kastljós á RÚV fjölluðu um fjármál Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta hæstaréttar, á mánudag. Þar var því meðal annars haldið fram að Markús hefði ekki tilkynnt um viðskipti sín til sérstakrar nefndar um dómarastörf og því velt upp hvort hann hafi verið vanhæfur til að dæma í málum tengdum Glitni eftir að hafa átt hlut í bankanum fyrir hrun.
Hvað er búið að gerast?
Hjördís Hákonardóttir, formaður nefndarinnar, staðfestir í bréfi til RÚV að Markús hafi tilkynnt um öll umrædd hlutabréfaviðskipti. Bréf þar um séu til hjá nefndinni, eitt þeirra hafi fundist eftir að þáttur Kastljóss fór í loftið.
Í yfirlýsingu segir Markús að honum hafi hins vegar ekki borið að tilkynna um fjárfestingar í gegnum eignastýringu Glitnis, sem hann fjárfesti í eftir að hann seldi bréfin í Glitni.
Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, tekur undir það og segir í viðtali við RÚV að Markús hafi ekki verið vanhæfur til þess að dæma í málum sem tengdust Glitni og fyrrverandi starfsmönnum hans eftir hrun.
Sigurður segir að Markús hafi ekki átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta þegar hann dæmdi í málunum.
Hvað gerist næst?
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins, segir á Vísi að ef einhverjir málsaðilar telji á sér brotið í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram þá eigi þeir að leita til lögmanna til að skoða sín mál.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.