Um hvað snýst málið?
Tristan Thompson, leikmaður Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni, er sagður hafa haldið oft og mörgum sinnum framhjá kærustunni sinni, Kardashian-systurinni Khloe. Hún gengur með barn þeirra og býr sig nú undir að koma því í heiminn en Tristan á ekki sjö dagana sæla.
Hvað er búið að gerast?
Framhjáhaldið varð opinbert í vikunni þegar vefmiðillinn TMZ birti myndband úr öryggismyndavél frá því í október sem sýndi Tristan gera sér dælt við tvær konur á skemmtistað í Washington. Khloe var þá komin þrjá mánuði á leið. Myndbandið sýnir hann kela við konurnar og önnur grípur meðal annars í klof hans.
Fleiri myndbönd birtust í kjölfarið sem sýndu Tristan með öðrum konum. Ein þeirra birti myndband á Instagram sem virtist sýna hann kela við hana en hún tók það niður eftir skamma stund.
Aðdáendur Khloe hafa ekki sparað stóru orðin um Tristan á samfélagsmiðlum. Hann hefur fengið líflátshótanir ásamt því að vera kallaður hataðasti maður Bandaríkjanna um þessar mundir. Þá var púað á hann í leik Cleveland og New York í gærkvöldi.
Hvað gerist næst?
Samkvæmt nýjustu fréttum er Khloe í rusli yfir hegðun kærastans. Hún ætlar þrátt fyrir það ekki að koma í veg fyrir að hann verði fái að vera viðstaddur fæðingu dóttur þeirra, sem er væntanleg í heiminn á hverri stundu.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.