Um hvað snýst málið?
27 einstaklingar frá Albaníu og Makedóníu voru fluttir frá landinu klukkan fjögur í nótt, þar af fimm fjölskyldur með börn. Tvær af þessum fjölskyldum voru frá Albaníu; hjón með þriggja ára dóttur og ársgamlan son með hjartagalla og hjón með fimm ára dóttur og þriggja ára son sem glímir við slímseigjusjúkdóm.
Hvað er búið að gerast?
Fjölskyldufaðir síðarnefndu albönsku fjölskyldunnar flutti til Íslands með fjölskyldunni til að forðast hefndir glæpagengis og til að nálgast lyf og læknishjálp fyrir son sinn.
Í tilkynningu frá Útlendingastofnun kemur fram að báðar albönsku fjölskyldurnar hafi dregið til baka kærur sínar til kærunefndar stofnunarinnar vegna ákvörðunar stofnunarinnar um að þau fái ekki hæli hér á landi og óskað eftir flutningi til Albaníu.
Hermann Ragnarsson, vinnuveitandi og vinur albanska fjölskylduföðursins, segir á Vísi að það hafi ekkert annað verið í stöðunni hjá þeim.
Hann var búinn að missa atvinnuleyfi og búið að vísa honum úr landi og þá hafði hann engar tekjur. Svo átti hann ekkert að fá læknisþjónustu áfram nema að borga fyrir það á fullu verði.
Bent hefur verið á heimild til að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum.
Hvað gerist næst?
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla um málið. Skorað er á hana að segja af sér í undirskriftasöfnun.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.