Auglýsing

Örskýring um mál málanna: Hvað gekk eiginlega á í gær og hvað gerist næst?

Um hvað snýst málið?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði af sér sem forsætisráðherra í gær. Eða svo héldum við. Stjórnarráðið sendi tilkynningu til erlendra fjölmiðla þar sem greint er frá því að Sigmundur hafi falið Sigurði Inga Jóhannssyni, varaformanni Framsóknarflokksins, að taka við í ótilgreindan tíma. Sigmundur hafi ekki sagt af sér.

Hvað er búið að gerast?

Á fundi Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar í gærmorgun sagði Sigmundur að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga.

Sigmundur fór svo á Bessastaði og óskaði eftir umboði frá Ólafi Ragnari Grímssyni til að rjúfa þing. Eða svo héldum við. Í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að formleg tillaga hafi ekki verið borin upp. Ólafur Ragnar hafnar þessu.

Síðar kom í ljós að Sigmundur hafði hvorki borið hugmyndir sínar um þingrof undir þingflokk sinn né Sjálfstæðisflokkinn.

Sigmundur Davíð hyggst sitja áfram á þingi og vera áfram formaður Framsóknarflokksins.

Hvað gerist næst?

Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi funda í dag. Bjarni sagði í Kastljósi í gærkvöldi að eitt af þeim mál­um sem hann muni ræða við Sig­urð Inga sé hvort til­efni sé til að flýta kosn­ing­um.

Minnihlutinn hyggst halda til streitu tillögu um vantraust á hendur ríkisstjórninni. Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli þriðja daginn í röð.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing