Um hvað snýst málið?
Búist er við að Apple kynni nýjan iPhone 7 á haustkynningu fyrirtækisins 7. september næstkomandi. Þó Apple hafi kynnt nýjan iPhone á hverju einasta ári síðustu ár er eftirvæntingin mikil.
Hvað er búið að gerast?
Samkvæmt vefsíðunni Mac Rumours er búist við að Apple kynni nýjan iPhone 7 og iPhone 7 Plus. Búast má við að símarnir verði með endurbættri myndavél, hraðari örgjörva ásamt því að orðrómur er um að símarnir verði vatnsheldari en áður.
Gamla góða jack-tengið, fyrir heyrnartól, verður ekki til staðar og home-takkinn ku vera snertinæmur. Símarnir verða að öllum líkindum líkir forvera sínum, iPhone 6s í útliti, svipað stórir og eins í laginu.
Loks má búast við hraðari tengingum við internetið og meira geymsluplássi — frá 32 upp í 256 gígabæt.
Hvað gerist næst?
Miðað við reynslu síðustu ára þá ætti nýr iPhone að lenda á Íslandi í október.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.