Auglýsing

3.000 upphífingar í Meistaramánuði: Eins og að borða sömu máltíðina oft á dag í heilan mánuð

Ég setti mér tvö markmið í Meistaramánuði: Að gera 3.000 upphífingar og 3.000 hnébeygjur. Ég hætti í tæplega 2.000 hnébeygjum og kenni blöndu af tímaskorti, leti og metnaðarleysi um. Hinum takmarkinu náði ég í gær á síðasta degi mánaðarins.

Sjáið bara hvað ég er ánægður (myndin er sviðsett).

Í myndbandinu hér fyrir ofan sjást semsagt 11 síðustu upphífingarnar. Þær áttu að vera tíu, ég hélt ég væri búinn með níu en þá voru þær 11. Upphífingarnar urðu sem sagt í heildina 3.001.

Þetta var alls ekki auðvelt. Til að klára 3.000 upphífingar á 28 dögum þarf að klára 107 að meðaltali á dag. Planið sem ég lagði upp með var að byrja af krafti svo pressan myndi minnka eftir því sem mánuðurinn styttist.

Ég hélt utan um verkefnið í Google Docs og tók 135 að meðaltali á dag fyrstu tíu dagana.

Eftir þessa tíu fyrstu daga var ég ekki bara orðinn þreyttur í höndunum, ég var kominn með ógeð á því að gera upphífingar. Tilfinningin var svipuð og að þurfa að borða sömu máltíðina á hverjum degi, oft á dag. Ef þessi máltíð væri eitthvað annað en pizza væri erfitt að pína hana ofan í sig eftir tíu daga vitandi að 18 dagar séu eftir.

En ég gerði það samt.

Í fyrstu ætlaði ég að reyna að taka upphífingarnar jafnt yfir daginn. Það gekk fyrstu dagana en svo færðust þær yfir á æfingar eftir vinnu og undir lokin var ég farinn að eiga 80 til 100 eftir klukkan níu á kvöldin. Ég þurfti því oftar en ekki að velja á milli upphífinga og sófans. Óska engum að þurfa að taka upphífingarnar þegar sófinn stendur til boða.

Ég tók líka upphífingar með fullan maga af Vesturbæjarís, tók 40 fyrir vinnu, náði að skjóta inn 20 áður en ég fór út að borða. Þetta var í einu orði sagt ömurlegt en þó afar lærdómsríkt. Því þó líkaminn hafi verið orðinn þreyttur þá var andlegi þátturinn langerfiðastur. Að koma sér á stað á hverjum einasta degi. Eða næstum því hverjum einasta degi. Ég tók tvo frídaga.

En nú er þetta búið. Ég vona bara að ég sé ekki kominn með svo mikið ógeð á upphífingum að ég geri þær aldrei aftur.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing