Tilfinningin sem ég fæ þegar ég burðast inn með allan varninginn sem tilheyrir komandi hátíðarhöldum er hreint ekki góð. Trúið mér, ég er enginn mínimalisti, en ef halda á hefðbundin íslensk jól getur fylgt því geypilegt magn af alls konar jóleríi; mat, drykk, skrauti, gjöfum og síðast en ekki síst umbúðum.
Margfaldaðu svo magnið með tveimur fyrir hvert barn á heimilinu. (Halló jólaföndur!) Dótið hleðst upp! Það fyllir alla skápa og skúffur, það vellur upp úr ruslatunnunum og sumum fallast hendur. Svo hér eru nokkur hugmyndir að því hvernig þú getur minnkað umfangið og átt örlítið grænni jól:
1. Grysjaðu barnaherbergið
Notaðu tækifærið í aðdraganda jólana til að hjálpa barninu þínu að búa til pláss (með eða án þeirra hjálpar). Taktu hluti úr umferð, gefðu þá áfram, láttu þá hiklaust hverfa ef þeir eru ónýtir, brotnir eða barnið vaxið uppúr þeim. Börn eru safnarar og á ákveðnum aldri er geysilega erfitt fyrir þau að láta hluti frá sér – en þú vilt að það sé hægt að ganga um herbergið þeirra …
2. Jólagjafir barnanna
Vertu viðbúin því að fólk spyrji þig hvað augasteinninn þinn vilji fá í jólagjöf. Vantar einhvern eitthvað, fílar viðkomandi Legó umfram Playmo. Elskar hún að púsla eða gefst hún upp á öllu dútli eftir tvær– er ennþá leir í mottunni eða fótboltamarkið ónotað frá í fyrra … þú þekkir börnin þín best. Hugsaðu um dótið sem þau munu fíla og nenna að leika sér með oftar en einu sinni. Hikaðu ekki við spyrja aðra foreldra hvað þeir séu að spá. Það er æðislegt að fá eitthvað sem börnin geta deilt og leikið með við vini og vinkonur. Á ákveðnum aldri er fátt svalara en að eiga “eins”.
3. Jólamaturinn
Fyrir marga snúast jólin um upplýst óhóf. Það má ekkert klárast! Það lokar allt! Í korter krakkar. Það er lokað í andartak og svo er allt opið aftur. Það mun enginn svelta á jólunum, og þó það vanti gulu baunirnar á jóladag þá er það ekki endir alls. Íhugum heldur hvernig við ætlum að koma út afgöngunum. Vertu tilbúin/n með uppskriftina fyrir afgangana. Bjóddu svengstu ættingjunum þínum í kaffi … rétt fyrir kvöldmat ef þú getur ekki hugsað þér að borða þetta allt sjálf/ur. Settu ost yfir hvað sem er, það eru góðar líkur á því að það bragðist hreint ágætlega.
4. Gjafirnar sem þú gefur
Notaðu fjölnotapoka þegar þú ferð að versla. Grundvallarmistök sem margir gera er að taka við fullt af aukaumbúðum strax í búðinni. Ef þú mögulega getur afþakkaðu þá allt aukatrumsið sem fylgir innkaupunum. Notaðu gjafapoka til að afhenda gjafirnar eða listaverk eftir börnin þín, eða gömul dagblöð. Allt frekar en að kaupa fleiri rúllur af einnota pappír sem hvort eð er rifnar næstum strax. Íhugaðu margnota merkispjöld … þetta er oftast sama fólkið sem er að skiptast á gjöfum er það ekki? Ef það stemmning fyrir endurvinnslu í fjölskyldunni þá er hægt að ræða „endurgjafir“. Átt þú eitthvað sem þú ert hætt/ur að nota en myndi gagnast og gleðja annan?
5. Hugsaðu út fyrir ruslið
Hefðbundnar tunnur fyllast fyrir jól. Og það er bókað að daginn sem þú ætlar í Sorpu er a) ógeðslegt veður eða b) allir aðrir á leiðinni í endurvinnsluna líka. Svo fáðu þér tvo þrjá bananakassa út í búð og komdu þeim fyrir til þess að taka við „affallinu“ af pappír, plasti og slíku. Þá getur þú flokkað þetta jafnóðum og þarft ekki að horfa á allt safnast upp. Og sturtað hratt úr kössunum á endurvinnslustöðinni án samviskubits. Skoraðu á krakkana að flokka fyrir þig – þau eru mörg mjög flinkir sorterarar.
6. Jólaskrautið
Ágæt regla er að ef það kemur nýtt skraut inn á heimilið þá hverfur eitt gamalt skraut í staðinn. Jólaskraut má líka byrja að hverfa fyrir þrettándann, það er alveg hefð fyrir því. Varðandi jólaskrautið sem börnin framleiða (jólaföndur, halló aftur) þá er hugmynd að taka mynd af barninu með gripinn sinn – hún endist nefnilega lengur og þá ertu líka með upplýsingarnar um hversu gamalt barnið var og hversu stolt af verkum sínum. Þá þarftu mögulega ekki að geyma gripinn sjálfan … að eilífu.
7. Jólapósturinn
Það er allt að fyllast af bæklingunum. Íhugaðu að afskrá þig fyrir markpósti ef þú hefur gert það nú þegar eða setja poka/kassa við hliðina á lúgunni svo þú þurfir ekki einu sinni að bera pappírinn inn ef hann vekur ekki áhuga þinn.
Ertu með fleiri hugmyndir í púkkið?
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook og við fögnum kommentum og ábendingum þar.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.