Auglýsing

Á það að vera lotterí að fá dagforeldri fyrir barnið sitt?

Já, halló. Ég heiti Kristrún mig langar að koma barni á biðlista hjá þér?
Er hann langur  … já, vá alveg svona langur?
(brestur í grát)
Já, ég er samt bjartsýn. Sorrý mér var bara sagt að ég ætti að hringja strax.
Jú – barnið, það fæddist bara í gær.
Ég er ekki komin með nafn en ég er með kennitöluna.
Það er stelpa (sýgur upp í nefið).
Já, takk. Jú, hún er rosafín.  Hraust og mannblendin og ég er alveg til í að gefa annað nýrað ef þú getur leyft henni kannski að koma eftir svona sex mánuði eða bara hvenær sem er.
Ég lofa að hún verði aldrei lasin, (á innsoginu) ég get alveg borgað.
Já, hmmhmm. Já ég veit.
Einmitt.
(taugaveikluð) Jájá, ég veit það, ég skil það.
Á ég að hringja aftur segirðu.
Ha? Á ég bara að halda áfram að hringja í fleiri líka og gráta í símann?
Ó. Já, ókei – segjum það (með smá ekka).
Takk.
Já, takk fyrir það.
Já, ég veit. Takk samt.

 

Velkomin í veruleika nýbakaðra foreldra, til dæmis þeirra sem búa á láglendi í Reykjavík. En grínlaust, fólk er að fjölga sér, en dagforeldrum fjölgar ekki. Í Reykjavík fækkaði þeim úr 212 árið 2014 niður í 188 í desember í fyrra. Þetta er annars sígilt harmakvein. Foreldrar hafa kvartað undan daggæslufyrirkomulaginu í Reykjavík um árabil en það sækist seint að betrumbæta það. Kannski er þar einhver kerfislægur ómöguleiki á sveimi.

Nú er nýbúið að skipa nefnd í þar til bæru ráðuneyti sem á að endurskoða reglugerðina sem íslenskir dagforeldrar starfa eftir, þ.m.t. starfsskyldur og starfsskilyrði þeirra. Þar sem foreldrar eiga ekki beina aðkomu að nefndinni þá leituðum við eftir góðum ábendingum varðandi daggæslufyrirkomulagið í hópnum Mæðratips á Facebook, hópurinn telur nú rúmlega 5000 mæður með margþætta reynslu og bakgrunn.

Foreldrar hafa besta yfirsýn yfir þarfirnar hjá notendum þessarar mikilvægu þjónustu. Við vonum að nefndin og forsvarsmenn daggæslumála hjá sveitarfélögunum taki þessar uppbyggjandi ábendingar um endurbætur á daggæslufyrirkomulaginu til góðrar skoðunar.

Á það að vera lotterí að fá dagforeldri fyrir barnið sitt?

Hending ræður því hvaða aðili finnst til að annast barnið þitt og þú hefur enga tryggingu fyrir því að fá pláss, hvað þá að fá annað pláss ef eitthvað bjátar á. Ef þú eignast barn á óheppilegum tíma (sem passar leikskólakerfinu illa) eða í of barnmörgu hverfi þá er heppnin það eina sem þú getur stólað á. Árið 2016 ætti að vera til tæknilegur möguleiki til þess að fæðingarorlofssjóður, þjóðskrá og sveitarfélög tali saman og hafi þannig betri yfirsýn yfir þörfina sem er fyrir daggæslu hverju sinni og hvernig samspil er milli þjónustu dagforeldra og leikskóla. Það verður að vera til staðar hvati fyrir sveitarfélögin svo þau stuðli að fjölgun dagforeldra þegar á þarf að halda.

Það er ekkert plan B

Ef dagforeldrið þitt veikist, þarf að sinna eigin börnum, þarf að fara í jarðarför, komast frá í langa helgi eða ökklabrotnar þá ert þú og hinir sem dagforeldrið sinnir bara fokkt. Ábyrgðin á dagforeldrum er þ.a.l. gríðarleg, sem hlýtur að fæla marga frá því að taka að sér störf af þessu tagi. Samtök atvinnulífsins og allir sem láta sig jafnréttismál varða ættu að leggjast á árarnar með foreldrum og vinna að því að plan B sé til.

Meira öryggi

Það verður að vera hægt að senda inn ábendingar/tilkynningar tengdar þjónustunni nafnlaust. Það er ekki í boði í dag og fólk veigrar sér við því að tilkynna eða kvarta vegna þess … að það er ekkert plan B.

Það er síminn!

Síminn er eina samskiptatækið sem dagforeldrar virðast nota. Það ætti að vera hægt að sækja um þjónustu dagforeldra á netinu, og senda þá upplýsingarnar sínar á fleiri en einn í einu. Það myndi spara geysilega mörg símtöl, kvíðaköst og tilvistarangist hjá foreldrum ef hægt væri að vita hvenær fjölskyldur fá pláss hjá dagforeldri. (Og ekki væri verra að það væri innan 6 km radíus frá lögheimili barnsins).

Það hefur enginn fulla yfirsýn

Í núverandi fyrirkomulagi hefur enginn nákvæma yfirsýn yfir hversu margir eru á biðlista eftir plássi hjá dagforeldrum, né hvað það þjónustan kostar. Eina leiðin til þess að komast að því er að hringja, þá til dæmis í þá rúmlega 130 verktaka sem starfa í Reykjavík. Upplýsingar um áherslur, starfsaldur, aðbúnað og annað sem skiptir foreldra miklu máli eru síst aðgengilegar. Að halda hóp af fólki í fullkominni óvissu um hvenær það kemst aftur út á vinnumarkað er annars ágæt getnaðarvörn.

Það er ekkert samtal

Sveigjanleiki í núverandi kerfi fyrir fólk sem ekki vinnur hefðbundna 9 til 5 vinnu á virkum dögum er nær enginn. Mjög margir dagforeldrar vinna bara til kl. 16 eða korteri meira. Fæstir dagforeldrar vilja taka við börnum hálfan daginn. Sveigjanleiki í þessu kerfi mun ekki aukast nema ef virkt samtal er milli atvinnulífsins, sveitarfélaganna og dagforeldra. Ef enginn þekkir þörfina þá þróast kerfið ekki.


Við sem samfélag þurfum að ákveða hvort daggæsla eigi að vera forréttindi eða sjálfsögð réttindi. Það starfar fullt af frábæru, velmeinandi og yndislegu fólki að daggæslumálum á Íslandi en kerfið er gallað. Breytum krefinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing