Í gær var Halldór Laxness Halldórsson mikið í umræðunni út af snappi sem hann tók fyrir Nova á átta ára afmæli fyrirtækisins. Snappið þótti ýmist ófyndið, fyndið, hræðilegt, ala á ofbeldishneigð barna og unglinga, gott dæmi um föður sem leikur sér með börnum sínum eða sönnun þess að Halldór sé algerlega vanhæfur faðir. Misskilningurinn var sá að upphaflega hélt fólk að Dóri hefði rétt dóttur sinni flugbeittan hníf en þegar í ljós kom að þetta var bitlaus skrauthnífur eða leikmunur slökkti það þó ekki eldana heldur voru margir sannfærðir um að þetta ofbeldisleikfang (eða vísir að smjörhníf) væri bara upphafið að mikilli kutaáráttu dóttur hans og það væri sennilega enginn óhultur á meðan Dóri héldi áfram að deila út vísum að vopnum til barna sem myndu kveikja trylltan morðhug líka hjá hverjum þeim sem sæi eða heyrði af. Soldið afgerandi ef þið spyrjið mig.
Í gær baðst svo Nova afsökunar á snappinu hans Dóra og tók það út. Það má alveg deila um hvort að það hafi verið fyndið og það má auðvitað vera hneykslaður á því að leikföngin séu manni ekki að skapi. Ég verð hneyksluð ef fólk lætur börnin sín ekki taka lýsi eða syngur eitthvað annað en Hrekkjusvínin fyrir þau og það má enginn banna mér það. En fólk á ekki rétt á afsökunarbeiðni þó að það sé hneykslað. Það er ekki samasemmerki þar á milli. Og á hverju er Nova að biðjast afsökunar? Á að ekki öllum hafi þótt þetta jafn fyndið? Getur Nova stjórnað því? Og um leið og Nova biðst afsökunar þá er það að segja að Dóri hafi gert eitthvað rangt. Sem hann gerði ekki.
Ótti hvers grínista er að verða tekin fyrir af fjölmiðlum fyrir eitthvað sem hann eða hún segir og lenda í klónum á kommenturum. Oft því að hlutir eru teknir úr samhengi og matreiddir til að valda hneyksli og fá smelli og líka því að þegar þú ert að vinna við að dansa á mörkunum er við því að búast að þú stígir einhverntíman yfir línuna. Við erum ekki mjög þolinmóð gagnvart mistökum náungans og þegar eitthvað svona fer í umræðu verður allt mjög fljótt svart og hvítt og það líða yfirleitt ekki margar mínútur áður en einhver er kallaður nasisti.
Umræðan verður sjaldan upplýsandi eða gefandi í kommentaþráðum og á sér allt of sjaldan stað utan þeirra. Markmið hennar er líka allt of oft að sigra viðmælandann en ekki að komast að niðurstöðu.
Ég er sjálf mjög hrædd við að gera mistök og segja eitthvað sem fólk misskilur og gefur skakka mynd af mér. Ég fer í hausnum yfir öll viðtöl sem ég fer í og óttast svo alltaf að vakna morguninn eftir og lesa frétt á DV eða Vísi um hvað ég sé mikill auli. Auðvitað er það svo að þeir sem eru opinberar persónur verða að vanda sig og axla ábyrg á orðum sínum og vera viðbúin óvægnum umræðum en fjölmiðlar verða líka að sitja á smelludólgum sínum í fyrirsagnasmíð og framsetningu. Síðan hef ég alltaf verið efins um hugmyndina á bakvið opin komment undir fréttum. Eru þau ekki bara að gera okkur öll geðveik?
Undanfarin ár hefur verið ofboðsleg vitundarvakning um allskonar óréttlæti sem hefur verið í gangi og beinst gegn minnihlutahópum, konum og fólki sem hefur ekki haft sterka rödd í samfélaginu. Það er æðislegt. Við erum að standa betur við bakið hvort á öðru og passa upp á náungann. Fólk er langþreytt og reitt og lætur í sér heyra. En stundum, þegar það er vont veður, og allir eru heima á netinu og að horfa á Nova snappið getur reiðin beinst í ófyrirséðar áttir.
Það er mjög mikilvægt að þegar maður setur sjálfan sig að veði fyrir eitthvað fyrirtæki eða fjölmiðil að vita að það stendur með manni ef eitthvað bregður útaf. Þess vegna finnst mér mjög lélegt af Nova að hafa ekki staðið með Dóra og beðið þennan storm af sér þangað til Almar í kassanum kúkar aftur í poka eða eitthvað annað grípur athygli okkar. Það er ekki hughreystandi eða hvetjandi fyrir aðra grínista eða listamenn að vita að ef ekki fer allt að óskum þá sé maður einn á báti.
Í gær var ég ekki bara reið útaf því að Dóri er vinur minn og það er alltaf vont þegar einhver sem maður þekkir fær óvægna ósanngjarna umræðu heldur líka því að ósanngjarna óvægna umræðan sigraði skynsemina um leið og Nova lúffaði og nennti ekki að standa með fólkinu sínu.
Þetta hefði auðveldlega getað verið ég. Og hver veit nema að ég lendi einmitt í einhverri svona hringiðu á morgun eða þú eða maðurinn sem drap ekki Lúkas, aftur. Og þá vona ég að skynsemin sigri.
Að lokum legg ég líka til að fólk sé minna á netinu og meira úti að leika í snjónum eða inni, nakið í kassa eða að leika við börnin sín eða eitthvað.