Í dag urðu breytingar á eignarhaldi Nútímans. Framleiðslufyrirtækið Skot keypti 35 prósent hlut í útgáfufélaginu Fálka útgáfu og Guðmundur Sigursteinn Jónsson, annar stofnenda Nútímans, hvarf úr hópi (eða reyndar dúett) hluthafa. Eftir breytinguna á ég 65 prósent hlut í Fálka og Skot 35 prósent en Skot keypti 25% af Gumma og 10% af mér.
Inga Lind Karlsdóttir og Hlynur Sigurðsson eru á bakvið Skot. Samstarfið hófst í september þegar við tilkynntum að Skot myndi byggja upp sjónvarpshluta Nútímans. Samstarfið hefur gengið hrikalega vel og í dag erum við að senda frá okkur þrjú til fimm myndbönd í hverri einustu viku.
Í góðri viku erum við að fá 170 þúsund áhorf á myndböndin okkar. Það er ótrúlegt í ljósi þess að við erum rétt að byrja.
Við erum búin að fela myndavél í Kringlunni og skoða viðbrögð við brjóstgjöfum mæðra, búin að fá Áslaugu Örnu til að lesa ömurleg ummæli um sjálfa sig og athuga hvort ungt fólk kunni að skipta um dekk.
Við athugum hvort börn gætu staðist páskaegg, framleiddum vandaða þætti um glamúrfyrirsætu og ungan bardagakappa, hittum fólkið sem var gert grín að í Skaupinu og spurðum fullt fólk hvað því finnst um sölu á áfengi í matvöruverslunum.
Við létum líka hvolpa spá fyrir um úrslitin í undankeppni Eurovision, hittum hóp af fólki sem á fræga nafna og fylgdum áttræðri fyrirsætu í fyrstu módelmyndatökuna sína.
Svo fórum við á sjálfkeyrandi Teslu upp í Mosfellsbæ og lifðum það af, könnuðum mínimalískan lífsstíl, leyfðum fólki að prófa svifbretti og könnuðum hvort ungt fólk þekkti forsetaframbjóðendurna.
Þetta er aðeins lítið brot af því sem við erum búin að gera. Og það er hellingur framundan. Eins og ég segi: Við erum rétt að byrja.
Aðsóknin á Nútímann hefur aukist mikið frá því að vefurinn fór í loftið í ágúst árið 2014. Í dag eru heimsóknirnar 60 til 120 þúsund í hverri viku og við eigum helling inni.
Samstarfið við Skot hefur reynst mikil lyftistöng fyrir Nútímann en frumleg og skemmtileg myndbönd eru örugglega besta efni sem hægt er að bjóða upp á á internetinu. Það var því rökrétt framhald að fá fyrirtækið inn sem hluthafa til að efla samstarfið enn frekar.
Það er semsagt bjart framundan. Fylgist með ????