Nú taka foreldrar til. Oft. Ég held því fram að miskunnarlausasta hlutverk konunnar í árþúsundir sé að þurfa sífellt að ganga frá eftir aðra en sjálfa sig. Líka í atvinnulífinu, en það er önnur saga. Þessi pistill er um draslið sem dóttir mín leikur sér með.
Henni til varnar þá er hún algjör óviti ennþá. En besta leikfangið hennar er sumsé blautbréfsþurrku-umbúðirnar. Hún á, líkt og flest börn, mýgrút af gullfallegum, vel hönnuðum, gæðavottuðum þroskaleikföngum en nei – hún kýs heldur umbúðir sem ættu með réttu að vera á leið í endurvinnsluna. Fyrrgreint rassaklútaplast, papparúllur, slitnar hárteygjur … þetta eru hennar ær og kýr. Og hún nær hunsar allt sem kalla mætti hefðbundin leikföng (nema þau sem aðrir eiga – þau eru auðvitað mjög spennandi og skemmtileg).
Ég þekkti einu sinni barn sem lék sér dögum saman með herðatré sem það kallaði Simba – sbr. Konung ljónanna. Það var drengur með alvöru ímyndunarafl. Hann þurfti ekki bangsa eða annað ljóni-líkt. Honum dugði herðatréð. Vonandi verður dóttir mín þannig.
Þar sem hún situr, í ruslabing æsku sinnar, og hjalar við krumpað plast, slef-blautan pappa og annað afdankað hversdagsdrasl í sæluvímunni sem sakleysið leyfir henni, hugsa ég um sjálfbærni og þroska. Hvað er eiginlega „þroskaleikfang“? Er að ekki dót sem lætur foreldrum líða vel? Það gefur okkur tálsýn þess að við séum að „hjálpa til“ við eitthvað sem er svo gjörsamlega eðlilegt að það er nær algjörlega sjálfsagt.
Börn munu leika sér. Á öllum þroskastigum sínum munu þau skoða umhverfi sitt, prófa sig áfram, naga hluti, berja þeim saman, tæta þá í sundur, setja saman aftur – pota, príla og plokka í það sem fyrir þeim verður hvort sem það er gæðavottað, vísindalega prófað eða sótthreinsað eða ekki. Og við munum taka til og ganga frá eftir þau. Ef dóttir mín nær ekki samræmdu prófum framtíðarinnar þá skal ég éta þroskaleikföngin oní mig aftur. Þangað til mun ég ekki stöðva hana í því að skríða oní endurvinnslukassann.
Hæ, við Nútíma-Foreldrar erum líka á Facebook.
Lækaðu þar ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.