Meistaramánuður hefur verið endurvakinn eins og við sögðum frá á Nútímanum. Einu sinni var Meistaramánuður í október en í þetta skipti er hann í febrúar. Ég ætla að vera með. Þú skráir þig hér.
Matarræðið er í sæmilegum málum. Ég borða rusl á laugardögum sem smitar stundum örlítið út frá sér á dagana í kring, ég ætla ekki að breyta því. Ég hreyfi mig líka fimm til sex sinnum í viku en markmiðin mín í Meistaramánuði verða engu að síður líkamleg.
Markmikið eru semsagt tvö:
- Að gera 3.000 hnébeygjur
- Að gera 3.000 upphífingar
Leyfið mér að útskýra.
Ég æfði körfubolta þegar ég var krakki en hætti eins og fífl allt of snemma. Fyrir nokkrum árum fór ég að spila bumbubolta með félögum mínum og þá var ekki aftur snúið. Að spila körfubolta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri þótt ég sé ekkert brjálæðislega góður.
Ég vil samt ekki meina að ég sé vandræðalega lélegur en ég mætti bæta ýmislegt. Ég hitti til dæmis ekkert sérstaklega vel en andskotinn hafi það, ég get stokkið. Og það getur komið sér mjög vel. Það var því ákveðið áfall í byrjun desember þegar ég rústaði á mér ökklanum — þegar ég var að spila körfubolta. Auðvitað.
En þá meina ég rústaði honum. Bólgan náði langleiðina upp að hné og læknirinn sagðist aldrei hafa séð jafn ljótan ökkla sem var þó hvorki brotinn né slitinn. Það er óþarfi að lýsa þessu nánar, hann leit svona út:
Þessi mynd var sem sagt tekin daginn eftir hina konunglegu rústun. Blóðið átti síðar eftir að ferðast niður í tær og mygla, með þeim afleiðingum að tærnar urðu svartar. Svona eins og ég væri með drep í þeim.
Allavega. Löppin (og tærnar) er enn á sínum stað. Fólk er víst hætt að kæla og hvíla þannig að ég er búinn að halda ökklanum á hreyfingu frá því hann tútnaði út eins og blaðra.
Meiðslin hafa óneitanlega dregið úr mér kraft, bæði andlegan og líkamlegan. Það segja allir að það taki sinn tíma að jafna sig á svona meiðslum en ég nenni þessu ekki. Nú tæpum tveimur mánuðum síðar spila ég körfubolta eins og ég sé 20 árum eldri og 20 kílóum þyngri en ég er. Ég get ekki tekið almennilegan sprett og það sem verra er, ég get ekki hoppað almennilega.
Ég ætla því að nýta Meistaramánuðinn í að ná krafti aftur í löppina. Meðfram hefðbundnum æfingum ætla ég að gera 3.000 hnébeygjur í febrúar. Það gera um 107 hnébeygjur á hverjum einasta degi. Hvort sem þær eru þyngdar eða með eigin þyngd. Stundum geri ég margar þungar, stundum fáar. Stundum engar og bara með eigin þyngd. Eina skilyrðið er að þær séu djúpar og góðar.
Þetta verður erfitt því ökklinn hefur bæði tapað krafti og liðleika. En til góð hnébeygja krefst hvoru tveggja þannig að ég vonast til þess að styrkja hann duglega í mánuðinum.
Til að krydda þetta ætla ég svo að gera 3.000 upphífingar. Þær mega vera með hverskonar gripi sem er, ytra eða innra. Eina skilyrðið er að þær séu dauðar, ég má ekki kippa mér upp. Þetta ætla ég að gera til að koma upphífingum aftur á dagskrá, eftir að hafa vanrækt þessa frábæru æfingu í nokkra mánuði.
Þetta verður ekki auðvelt. Sjáum til hvernig gengur. Þú getur fylgst með mér á Twitter.