Ég verð nú að viðurkenna að ég botna lítið í rökum stjórnar VÍS fyrir arðgreiðsluleysi árin 2009-2013. Ég kíkti þess vegna aðeins í ársreikninga tryggingafélaganna og skoðaði hagnað vs. arðgreiðslur. Tryggingafélagið Vörður er ekki í samantektinni enda í eigu Bank Nordik en ekki margra fjárfesta.
Í fljótu bragði sá ég þetta:
VÍS var í eigu kröfuhafa Exista, Klakka, árin 2009-2013 og skráðu þeir tryggingafélagið í Kauphöll árið 2013. Klakki tók ekki arð út úr VÍS. Þess í stað fékk Klakki greitt fyrir VÍS við sölu hlutabréfa félagsins við skráningu á markað.
En. Sama ár og félagið fór á markað var ákveðið að greiða hluthöfum arð og hefur félagið síðan þá greitt nálægt og stundum langt yfir allan hagnað fyrirtækisins á hverju ári, sbr. 2.500 milljóna króna arð árið 2014. Hagnaður árið 2014 var 1.710 milljónir króna en 2.154 milljónir árið 2013. Ef arðgreiðslutillögur stjórnar VÍS ganga eftir um 5.000 milljóna króna arðgreiðslu vegna uppgjörsársins 2015 (hagnaður ársins var .2.076 milljónir) verður búið að greiða næstum tvöfaldan hagnað VÍS frá árinu 2013. Heppnir hluthafar.
En VÍS er ekki einsdæmi.
Seðlabankinn eignaðist Sjóvá að langmestu leyti í hruninu og tók ekki arð úr félaginu. Þegar Sjóvá var svo skráð á markað 2014 fengu hluthafar sitt. Stjórn félagsins ákvað svo að greiða hluthöfum 4.000 milljóna króna arð. Það var fjórfaldur hagnaður ársins og um þrefaldur hagnaður ársins á undan. Ársreikningur Sjóvár fyrir árið 2015 liggur ekki fyrir.
TM var sömuleiðis skráð á markað 2013 en hafði fram að því verið í eigu kröfuhafa frá falli FL Group. Sama ár var ákveðið að greiða hluthöfum arð. Ákveðið var að miða arðgreiðslu við 50% af hagnaði. Ári eftir skráningu var hins vegar ákveðið að greiða hluthöfum 4.000 milljónr í arð. Það var rétt tæpur hagnaður alls ársins 2014 og 2013! Tillaga stjórnar TM nú hljóðar upp á 1.500 milljóna arð miðað við 2.827 milljóna króna hagnað. Arðgreiðslan er því aðeins yfir 50% af hagnaði.
Fljótt á litið líta arðgreiðslur tryggingafélaganna svona út. Ástæðan fyrir arðleysi var sú að eigendur tryggingafélaganna fóru í þrot og tóku kröfuhafar, ríkið (Seðlabankinn) og aðrir (bankar og lífeyrissjóðir) félögin yfir. Þeir sem eiga félögin nú eru að mestu aðrir fjárfestar (fyrir utan stöku lífeyrissjóði sem hafa mælt fyrir lægri arðgreiðslum) og því ótækt að halda því fram að hluthafar hafi ekki tekið arð úr félögunum á sínum tíma. Enda ansi rík ástæða fyrir því.
Og á sama tíma og arður hluthafa eykst hækka iðgjöld viðskiptavina.