Auglýsing

Furðulegri málsvörn Ragnars Önundarsonar svarað

Ragnar Önundarson birti athyglisverða málsvörn á Facebook-síðu sinni í morgun. Ummæli hans um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, í gær vöktu mikla reiði en Ragnar ákvað að sýna með fordæmalausri nákvæmni af hverju hundruð stjórnmálakvenna stigu fram og kröfðust breytinga.

Sjá einnig: Ótrúleg færsla Ragnars Önundarsonar um Áslaugu Örnu þykir sýna af hverju konur krefjast breytinga

En málsvörnin er athyglisverð. Ég ákvað að skoða hana aðeins og svara því sem mér fannst furðulegt. Sem var reyndar allt. Ummæli Ragnars eru feitletruð, mín eru í hefðbundnu letri fyrir neðan. Myndirnar eru svo til að undirstrika tilfinningar mínar á meðan ég skrifa þetta.

 

„Ég er víst orðinn einn aðalmaðurinn à Facebook !“

Rosa flott hjá þér, Ragnar ????

„Það sem þarf að ræða í því samhengi er krafan um pólitíska rétthugsun, krafan um að fólk ritskoði sjálft sig og tjái sig eins og það má ætla að aðrir vilji heyra.“

Rangt. Enginn hefur farið fram á að þú ritskoðir sjálfan þig. Ég hef ekki einu sinni séð neinn fara fram á að þú dragir ummælin til baka þrátt fyrir fáránleika þeirra og þó það væri hressandi að sjá þig biðjast afsökunar á þeim. Úr orðum þínum má hins vegar lesa kröfu um að fólk ritskoði sjálft sig enda virðist þú helst hafa viljað sleppa við gagnrýni.

„Það gerir í sjálfu sèr ekkert til þó þessum kröfum sè beint að manni sem hvorki er í né sækist eftir neinni opinberri stöðu. Því miður er hins sama krafist af þeim sem sækjast eftir sliku, eru t.d. Í stjórnmálum.“

Og hvað? Hvað ertu að reyna að segja, Ragnar? Fólk segir það sem það vill. Sama fólk verður að geta tekið gagnrýni. Hvaða viðkvæmni er þetta?

„Tjáningarfrelsið er undirstöðuatriði lýðræðis og telst til mannréttinda. Hasarinn gengur út á að hefta það.“

Og það er enginn að reyna að hefta tjáningarfrelsi þitt, Ragnar. Hvað þá brjóta á mannréttindum þínum. Róa sig. Ég held að „hasarinn“ sé fyrst og fremst tilkominn vegna tímasetningar ummæla þinna. Yfirlætislegar umvandanir frá miðaldra körlum birtast á internetinu daglega. Oft á dag. Og þó þær beinist oftar en ekki að konum þá verða sjaldnast svona mikil læti, einfaldlega vegna þess að þið gerið þetta svo ógeðslega oft.

Í gær stigu hins vegar fleiri en 300 konur fram og kröfðust róttækra breytinga á starfsumhverfi kvenna í stjórnmálum. Þær sögðu frá hvernig stjórnmálin eru fjandsamlegur vettvangur fyrir konur vegna kynferðislegrar áreitni, ofbeldis og jafnvel hótana sem þær upplifa í störfum sínum. Þetta viðgengst þvert á flokka og konurnar sem stigu fram hafa tekið að sér fjölbreytt störf í íslenskum stjórnmálum; verið ráðherrar, framkvæmdastjórar, þingkonur, frambjóðendur. Bara nefndu það.

Þennan tímapunkt valdirðu til að gera lítið úr einni af þeim sem steig fram og sýndir þar með nákvæmlega hvers vegna þær vilja breytingar. Og þér finnst í alvöru skrýtið að orð þín og myndbirtingin af Áslaugu hafi vakið reiði?

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing