Gjörningur Almars Atlasonar, að eyða viku nakinn í glerkassa, hefur vakið mikla athygli á frétta- og samfélagsmiðlum og hafa margir skoðun á athæfinu. Margir hafa gantast með kringumstæður Almars, aðrir lýsa yfir vanþóknun og særðri blygðunarkennd og enn aðrir virðast hafa tengst honum óútskýranlegum tilfinningaböndum. En hver er ástæðan og tilgangurinn á bakvið gjörninginn? Með öðrum orðum: Af hverju er hann að þessu?
Hægt er að túlka gjörninginn á margan hátt. Það sem einkennir gjörninginn helst er umtalið sem hann fær, nektin, hvernig aðstæður Almars eru orðnar og hvað hann afrekar í glerkassanum. Þetta hlýtur t.d. að taka ákaflega mikið á líkamlega og andlega. Hreyfingarleysi, lélegt mataræði, ósnyrtilegt umhverfi og einangrun eru þættir sem m.a. auka líkur á þunglyndi. Hann kýs að tjá sig ekki með orðum á meðan gjörningnum stendur sem leiðir til enn meiri einangrunar og er þar að auki umvafinn sorpi og úrgangi. Að meðtöldum úrgangi úr sjálfum sér. Hægt væri að túlka gjörninginn sem ádeilu á lífstílssjúkdóma og óheilbrigðan lífsstíl sem er orðið að vandamáli í flestum nútíma samfélögum. Hreyfingarleysi og annars flokks mataræði er orðið að heilbrigðisvandamáli og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) m.a. lýst vandamálinu sem heimsfaraldri.
Þá gæti þetta verið samfélagsleg tilraun. Athugað er hve hörð og mikil viðbrögð tilviljanakennd hugmynd, eins og að vera nakinn í kassa í sjö daga, myndi vekja í samfélaginu, samfélagsmiðlum, fréttamiðlum o.fl. en gjörningurinn hefur vissulega vakið viðbrögð og fjölmargir myndað sér skoðun og tekið þátt í umræðunni.
Auk þess gæti Almar verið að vekja athygli á þeim þrýstingi sem er til staðar í samfélögum eins og á Íslandi. Þeim þrýstingi að koma vel fyrir sjónir, haga sér á ákveðinn hátt og fara eftir óskrifuðum reglum samfélagsins. Þessar óskrifuðu reglur geta bæði verið kostur og ókostur í samfélögum heimsins. Það að þurfa að líta vel út getur leitt til þrýstings að hreyfa sig sem gæti leitt til aukinnar vellíðan en gæti einnig haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd og sjálfsmat. Almar brýtur flestar óskrifaðar reglur íslensks samfélags en framkvæmir þó hluti sem flestir aðhafast, nema á bak við luktar dyr, ólíkt Almari.
Frjálst er að túlka gjörning Almars og hver veit nema það sé ástæðan. Stuðla að vangaveltum um hvað uppákoman eigi að fyrirstilla.
En þangað til gjörningnum lýkur þarf að láta sér nægja að geta sér til um hvað Almari gangi til. Sumir hlakka til að losna við hann úr umræðunni, á meðan aðrir kvíða því að þurfa að eyða köldum vetrarkvöldum í einsemd á ný með engan Almar sér við hlið uppi í hlýju rúmi eftir afbrigðileg tölvutilfinningatengsli við listamanninn.