Ég verð 19 ára í ár og mun því njóta þeirra forréttinda að fá að kjósa mér forseta í fyrsta skipti. Um leið og umræðan um forsetakosningar kom upp ákvað ég að mig langaði að taka þessu alvarlega. Ég hef aldrei verið mjög mikið fyrir stjórnmál né stjórnarfar landsins og hef einnig allt mitt líf haft sama forseta, þetta er því í mínum huga kjörið tækifæri til að kynna mér þessi mál aðeins betur.
Mitt álit er að mikilvægt sé að við unga fólkið kjósum og tökum þátt í umræðu um kosningar. Það sem við erum að kjósa um í forsetakosningum er framtíð okkar íslendinga og þar sem við unga fólkið erum framtíð Íslands eigum við að taka virkan þátt í að ákveða hver leiðtogi okkar á Íslandi og í útlöndum verður. Við megum ekki sitja á hliðarlínunni og láta aðra taka þessa ákvörðun fyrir okkur. Við unga fólkið erum framtíð þessa lands og eigum að láta það okkur varða.
Í dag eru ekki margir á mínum aldri sem hafa skoðun á stjórnarfari landsins né hvern þau vilja kjósa í næstkomandi forsetakosningum. Ég er alls ekki að alhæfa því ég veit einnig um nokkra sem hafa mjög sterkar skoðanir á þessum málum, en mér finnst leiðinlegt hve mikill minnihluti það er. Mín skoðun er að við unga fólkið eigum að kynna okkur forsetaframbjóðendurna og mér finnst að allir ættu að nýta kosningarétt sinn þó svo að það sé til að skilað inn auðu.
Þegar ég byrjaði fyrir alvöru að kynna mér forsetakoningarnar ákvað ég að skoða alla þá valmöguleika sem í boði eru. Einnig hef ég fylgst með öðrum frambjóðendum sem hafa bæst í hóp forsetaframbjóðenda síðan þá. Flestir sem ég hef skoðað er flott fólk sem hefur ólíkar skoðanir á því hvernig þau vilja leiða landið okkar sem forsetar. Eftir allar þessar vangaveltur þá stóð ein manneskja upp úr fyrir mér, Halla Tómasdóttir, sem mér finnst sérlega frambærileg og flott kona með skýra sýn, er jákvæð í garð allra og með mikla reynslu. Ég setti mig í samband við Höllu sem tók mér fagnandi og bauð mér að vera viðstödd þegar hún sagði þjóðinni að hún myndi taka þátt í forsetaframboði.
Það sem fangaði fyrst athygli mína á Höllu var þegar ég heyrði hana segja eitthvað á þessa leið; ég vil búa í samfélagi þar sem ungt fólk fer út að skoða heiminn og til að mennta sig, en vill samt alltaf koma aftur heim til Íslands. Þetta þótti mér svo vel sagt þar sem áhugi minn er að fara í nám í útlöndum er mikill, en þegar fólk spyr mig hvort ég myndi koma aftur heim þá hef ég verið efins. Ég vil ekki þurfa að vera efins um að koma aftur heim þar sem Ísland er landið mitt. Ég vil auðvitað sjá heiminn og ferðast en ég vil hafa viljann til að snúa aftur heim.
Það er sannarlega mikil hvatning í því heyra og finna hvað þetta er rétt, þ.e.a.s. að geta menntað sig á Íslandi og í útlöndum og geta komið stollt heim með þekkingu sem nýtist mér og þjóðfélaginu sem og að fá að njóta þess að takast á við alla þá kosti sem landið mitt hefur upp á að bjóða. Það er svo gott að finna að það er til fólk eins og Halla sem er vel menntuð alþýðukona og hefur barist fyrir mannréttindum og stutt dyggilega við konur til menntunar og frama í atvinulífinu. Og það er einmitt þess vegna sem ég lít upp til hennar og er stollt af því að fá að fylgja henni á þessari vegferð.
Já ég verð bara að segja það; Halla hefur upp á svo margt að bjóða. Hún er rosalega klár og hefur margar góðar hugmyndir fyrir land og þjóð. Hún er frumkvöðull, og ég segi það aftur, vel menntuð og með mikla reynslu á alþjóðavetvangi. Hún kann algjörlega að svara fyrir sig og lætur ekki slá sig út af laginu við erfiðar aðstæður, hún talar aldrei illa um aðra og kemur afskaplega vel fram. Þetta eru eiginleikar sem eru nauðsynlegir fyrir forseta að hafa þar sem forseti er andlit landsins.
Halla stendur fyrir því sem hún trúir á og hefur alltaf gert það. Hún leggur áherslu á að við búum í samfélagi sem ber virðingu hvort að öðru og að hlustað sé á vilja þjóðarinnar. Hún vill styrkja jafnrétti og byggja upp góða framtíð fyrir okkur Íslendinga. Það er einmitt þess vegna sem ég ætla að kjósa Höllu Tómasdóttur næsta forseta Íslands.