Bjarni Benediktsson er í góðum gír á Facebook-síðu sinni í dag og skýtur nettum skotum á íslenska fjölmiðla. Ég tek undir með Bjarna að það skortir fjármagn í íslenskt fjölmiðlaumhverfi. Manneklan er þar af leiðandi viðvarandi.
Ég get hins vegar ekki tekið undir þau orð að fjölmiðlar á Íslandi séu „lítið annað en skel“. Skelin – umgjörðin – hefur einmitt orðið undir í stökkbreytingu fjölmiðlaumhverfis heimsins á síðustu árum.
Það er fullt af hæfileikaríku fólki tilbúið að starfa á fjölmiðlum en mjög margir mjög hæfir einstaklingar hafa þurft að flýja í betur launuð störf í öðrum starfsgreinum eða yfirgefið bransann vegna þess að það eru ekki allir sem kunna að eiga fjölmiðla. Það hefur semsagt mistekist að gera skelina sem Bjarni vísar í nógu sterka til að halda í allt fólkið sem er sannarlega tilbúið að fórna miklu til að fá að starfa í fjölmiðlum.
Ég get ekki tekið undir með Bjarna að það sé eitthvað sérstaklega slæmt að „hver fari fram á eigin forsendum“. Ég væri allavega ekki að reka eigin fjölmiðil ef það væri ókostur. En mér sýnist gagnrýni hans að miklu leyti snúast um einhvers konar skilningsleysi á fjölmiðlum í dag vs. hvernig þeir voru. Og mér finnst það ekki skrýtið — ég skil ekki helminginn af því sjálfur. Ég skil t.d. ekki af hverju vefmiðlar eiga svona erfitt með að sækja tekjur, miðað við notkun og útbreiðslu.
Annars verð ég að lokum að benda á þessi orð Bjarna, þar sem hann gæti alveg eins verið að gagnrýna eigin vinnustað:
„Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag – önnur á morgun.“