Misskildir, metnaðarfullir, dramatískir, dofnir, frábærir, flippaðir, stjórnlausir, einbeittir og alls konar. Unglingar eru og verða unglingar en samt hefur líklega enginn aldrei, algjörlega skilið ungling. En flestar fjölskyldur þurfa að díla við gelgjuna – þetta miserfiða breytingaskeið í lífi unga fólksins – og það getur tekið á.
Við leituðum til Ragnheiðar Sigurjónsdóttur, fjölskylduráðgjafa og forstöðumanns Fjölskyldumiðstöðvar Rauða Krossins sem hefur mikla reynslu af því að hjálpa fjölskyldum út úr ýmiskonar vanda. Hún bendir á að það séu nokkur varúðarflögg sem foreldrar geta fylgst með til að meta hvort grípa þurfi inní:
- Ef foreldrar fara missa tökin á heimilislífinu og ungmennin almennt að taka stjórn af þeim.
- Ef ungmennið sækir í að loka sig af, kýs ekki lengur að vera í félagsskap vina sinna eða fjölskyldu.
- Ef barnið skiptir um vinahóp, fer að sækja í alveg nýjan félagsskap sem foreldrarnir fá ekki að kynnast.
- Ef barnið hættir að sinna almennu hreinlæti.
- Ef barnið neitar að fara eftir reglum og virðir ekki mörk.
Ragnheiður segir að margir foreldrar séu óöryggir með að setja börnum sínum mörk og það verði þá ennþá örðugra þegar þau komast á unglingsárin. Ramminn sé þeim afar mikilvægur, svo þau viti til hvers sé ætlast af þeim – annað getur valdið þeim óöryggi og vanlíðan. Þegar börnin stækka þarf að uppfæra rammann og reglurnar svo ungmenni séu ekki í óvissu um hvað megi og hvað ekki. Þá segir Ragnheiður að mikilvægast sé ávallt að mæta unglingnum þar sem hann er, ekki reyna að stjórna honum bara með boðum og bönnum heldur bjóða samvinnu og samninga. Þó það sé tímafrekara og krefjist meira af hinum fullorðnu.
Börn og ungmenni þurfi og vilji nærveru foreldra sinna þó þau eigi erfitt með að orða þá þörf eða sýna. Þess vegna sé mikilvægt að foreldrarnir geti verið til staðar þegar unga fólkið þarf á þeim að halda. Millivegur þess að ala upp sjálfstæða einstaklinga og þess að vilja pakka börnum inn í bómull og vernda þau fyrir öllu því agalega líka fylgir lífinu er vandrataður.
Það er margt í húfi, alvarlegir hlutir geta farið úrskeiðis hjá ungu fólki og því eru margir foreldrar hræddir við að leyfa unglingunum sínum að misstíga sig. Þá geta málin þróast þannig að foreldrar skipa sér, viljandi eða óviljandi, í hálfgert þjónustuhlutverk gagnvart börnunum sínum og þau fá ekki að reyna sig við „lífið“ upp á eigin spýtur. Það getur líka valdið kvíða og mótþróa.
Ragnheiður áréttar að eitt besta ráðið til þess að auka vellíðan fjölskyldunnar í heild séu góð samskipti milli foreldranna sjálfra. Börnin viti alltaf meira en við hin fullorðnu höldum – þau eru með virkilega góðan radar á tilfinningar okkar og finna strax ef tíðnin breytist. Líðan foreldra hefur þannig margfeldisáhrif á líðan barnanna.
Það sé gríðarlega góð forvörn fyrir fjölskyldur að sækja sér stuðning, ráð og aðstoð og á því sviði séu sífellt fleiri úrræði í boði. Hjá Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins er til að mynda boðið upp á ráðgjöf og stuðning við fjölskyldur í vanda, t.d. vegna samskiptaörðugleika, skilnaðar- og forsjármála, erfiðleika í skóla, áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna, geðrænna erfiðleika eða barna sem sýna andfélagslega hegðun. Áherslan hjá miðstöðinni er á fjölskylduna í heild og ráðgjöfin og viðtölin taka mið að því. Þjónusta hennar er frí og öllum opin, en tekjulægri fjölskyldur og berskjaldaðir ganga fyrir með þjónustuna.
Á síðasta ári þáðu um 1700 manns þjónustu miðstöðvarinnar með beinum eða óbeinum hætti. Nánar má fræðast um starf miðstöðvarinnar á heimasíðu þeirra eða gegnum netfangið fjolskyldumidstod@redcross.is.
Gagnlegt, fræðandi, skemmtilegt?
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.