Þetta byrjaði með Sabíu. Hún dúkkaði upp áður en dóttir mín varð þriggja ára. Sabía gekk í Austurbæjarskóla, vann í bakaríi og bjó hjá ömmu sinni. Hún var mjög góð vinkona dóttur minnar sem spann upp miklar frásagnir af lífi Sabíu og ævintýrum. Ég leiddi ekki hugann að þessu, fagnaði því bara að barnið væri með fjörugt ímyndunarafl (það er eitt af bjargráðunum til að geta fúnkerað á þessu skeri).
Svo hvarf Sabía og Palli frændi tók við. Hann var svo magnaður að við foreldrarnir sáum okkur knúin til að árétta við starfsfólkið á leikskólanum að þessi Palli væri ekki raunverulegur ættingi (gaman ef svo væri þó, hann var mjög víðförull og fjölhæfur maður). Með Palla frænda hófst þessi toppunar-árátta sem Anastasía hefur nú fært upp á efsta stigið. Ég verð að segja að mér hundleiðist hún Anastasía. Alltaf skal hún hafa gert eitthvað meira, betra, magnaðra nú eða hættulegra, fallegra og flottara heldur en nokkur annar!
Hún er meiri toppari en SDG og ég er ekki að segja þetta bara til þess að toppa topparana. Allar sögur af ævintýrum Anastasíu eru sagðar á innsoginu og í efsta stigi. Þar tíðkast breiðu spjótin.
Þegar dóttir mín hefur frásögn af hæfileikum, eignum eða afrekum Anastasíu þá gerist eitt af þrennu: a) ég horfi á hana á hlutlausan hátt og bíð þar til hún er búin með söguna, b) ég hlusta vel og spyr hana út í eitthvað í frásögninni, hvet hana til þess að halda áfram eða c) ég reyni að ranghvolfa ekki í mér augunum og stynja. Viðbrögð mín fara algjörlega eftir því hvort ég sé upplögð eða upptekin.
Það er merkilegt hvað barnið heldur góðum þræði í frásögnum af vinkonu sinni, þ.e. man hvað hafði áður komið fram um viðkomandi. Það hefur til dæmis verið margklifað á því að Anastasía sé líka fjögurra ára en samt flugmaður, og þær séu þríburar (sú þriðja heitir Ísabella en hún lifir ekki almennilegu ímynduðu lífi ennþá).
Svo ég fór að lesa mér til, eins og foreldrar gera. Lesefni um ímyndaða vini á internetinu hverfist nær allt um að þetta sé hið besta mál, virkilega algengt og skaðlaust og meira að segja mjög gott fyrir heilabú barnanna – þroskandi fyrir orðaforða og sköpunargáfu. En einhvern vegin er ég ekki alveg róleg.
Það sem plagar mig er að dóttir mín leikur sér ekki við þessa vinkonu; hún talar ekki við hana eða upplifir „físískt“. Virkni Anastasíu er nær eingöngu að toppa það sem aðrir segja eða gera. Ég ímynda mér hana eins og kvenkyns Donald Trump, bara dúllulegri og með eðlilegra litarhaft og hárgreiðslu. Og doldið smug. Eða mögulega einhyrningur.
En hér fann ég gagnlegar upplýsingar um ímyndaða vini:
Hvað gera ímyndaðir vinir?
– þeir veita börnum félagsskap.
– þeir hvetja til skapandi leikja og nýrra leiða til að framkvæma hluti.
– þeir hjálpa krökkum að æfa sig í samskiptum.
– þeir eru leið fyrir börn til þess að prófa mismunandi viðbrögð og tilfinningar.
– þeir gera barninu kleift að stjórna og stýra einhverjum, á tíma þeirra lífi þegar barnið hefur sjálft litla stjórn á eigin lífi.
– barnið fær að eiga einkalíf með vininum sem fullorðnir eru ekki hluti af.
– þeir geta hjálpað börnum að glíma við sterkar tilfinningar, til dæmis ef „vinur“ þeirra er hræddur eða þau eru reið við „vinkonu“ sína.
– þeir geta hjálpað börnum ef eitthvað í lífi þeirra orsakar hjá þeim streitu. Til dæmis ef barn sem er alltaf reitt við vin sinn eða vinkonu gæti upplifað að fullorðnir í lífi þess væru alltaf reiðir við það.
– börn sem eru mjög „góð“ geta átt vin sem er mjög „óþekkur“ og gerir þá hluti sem barninu langar kannski að gera.
– ímyndaðir vinir geta verið blórabögglar fyrir börnin, þ.e. tekið á sig sök eða réttlætt að barnið geri eitthvað því „vinur þeirra“ gerði það eða fékk að gera það.
Topparinn Anastasía virðist mér tikka í nokkur box þarna. Dóttir mín hefur skapað sér vinkonu sem lætur alla hennar trylltustu vonir og drauma rætast á öruggan og óvéfengjanlegan hátt. Og við hin – sem oft reynum að stýra ferðinni hjá henni – höfum ekkert um það að segja. Verandi kontrólfrík þá skil ég hana bara rosalega vel, þetta er líklega fullkomið fyrirkomulag.
Væri andsetið af mér að skapa kannski mína eigin vinkonu og tala um hana út í eitt? Hana [eitthvað mjög prinsessulegt nafn] sem ávallt hlýðir fyrstu beiðni, þráttar aldrei um neitt, gengur frá eftir sig og byrjar allar setningar á: „Elsku besta Kristrún mín …“ Já, líklega.