Ég gef mér að velflestir foreldrar eigi í hliðstæðu ástar- og haturssambandi við sænska stórmagazínið í Garðabæ. Verslunina sem gerir fólki kleift að flytja fyrr að heiman, borða ódýran ís, kveikja á óhóflegu magni af kertum og eiga púðaver fyrir hverja árstíð. Mekka hreiðurgerðarfólksins, þar sem hæverskir hönnunardraumar millistéttarinnar rætast á hverjum einasta degi. IKEA, meira að segja fyrrum forsetar versla þar.
Þessi verslun, sem er svo fádæma notendaprófuð og upplifunarhönnuð að þér líður bara vel með að kaupa alltaf 32% meira af dóti en þú ætlaðir þér, svarar svo mörgum þörfum barnafólks að fáir komast með tær að hælum. Þið þekkið þetta, IKEA gerir margt svo epískt vel. Hvernig er hægt að hata fyrirtæki sem virðist það eina með starfsemi á Íslandi sem systematískt lækkar verð? Fyrirtæki sem selur heitan mat sem börn vilja borða og er með leiksvæði út um allt. Boltaland! Takk fyrir Boltaland og kjötbollurnar og plastglösin og ódýru smekkina, fríu bleiurnar og flötu pakkningarnar og fjölskyldustæðin sem ég NB skil ekki að séu ekki miklu víðar!
Einhver sagði mér að stærð IKEA verslunarinnar á Íslandi væri á við þá í milljónaborg í útlöndum. Mér finnst hún í það minnsta fjári stór – og nú hef ég flutt það oft á síðustu 15 árum að ég kann þessa búð nærri utanað. Flutningum fylgja IKEA-ferðir og þær af verstu sort. Þær kalla ekki fram það besta í fólki. Ég mæli með því að fólk sem er virkilega að íhuga að færa sambandið sitt upp á næsta stig, nú eða að eignast krakka, fari saman í IKEA nokkra daga í röð, á fastandi maga. Svona til að sjá hvernig dínamíkin er þegar á reynir.
Svo er til fólk sem hreinlega sækist eftir því „fara með í IKEA“. Það er skrýtinn þjóðflokkur, en mikilvægur. Ef þið komist í tæri við slíkt fólk þá leggið rækt við sambandið ykkar – það gæti komið sér vel síðar. Það er algjörlega lífsnauðsynlegt að eiga vini eða ættingja sem geta og nenna að skrúfa saman flatpökkuð húsgögn þegar þú hefur ekki stamínu í slíkt.
Ég hélt reyndar að ég væri útskrifuð úr IKEA. Að dagar BILLY og MALM væru liðnir, að ég þyrfti ekki að herða einn einasta HEMNES framar og ég gæti kysst þennan RIBBA bless áður en ég kastaði þeim öllum á bál míns borgaralega stöðugleika og færi hlæjandi í Epal eða eitthvað álíka. En svo skildi ég og fór aftur á byrjunarreit.
Halló, gammal vän. Hér hittumst við aftur, örmagna í vefnaðarvörudeildinni.
IKEA ætti raunar að vera með sína eigin vísitölu. Ég gæti trúað að tempóið þar væri ein besta vísbendingin um raunverulegar hagsveiflur heimilanna í landinu. Peningastefnunefndir og greiningadeildir ættu að funda þar til að komast í raunverulegt samband við þjóðina. Því þjóðin, hún er í IKEA.