Auglýsing

Kæra Þjóðhátíðarnefnd

Það hefur vakið athygli mína síðastliðin ár að konur fá engin tækifæri til að semja Þjóðhátíðarlögin á hátíð ykkar. Þær hafa verið einungis verið brot af þeim flytjendum sem flutt hafa lögin sem samin eru og aðeins örfáar hafa fengið tækifæri til að semja textana. Síðustu tuttugu ár hefur engin kona samið lag, tvær hafa samið texta og tvær hafa verið flytjendur. Ef við horfum lengra til baka í söguna frá því árinu 1933 þá er varla hægt að segja að það séu betri tölur.

Undanfarin ár hefur verið mikil vakning í kvenhreyfingu á sem flestum sviðum íslensks atvinnulífs og lista. Umræðan um eflingu og jöfn tækifæri hefur verið mikil og jákvæð, og hafa flestir lagt sig fram við að gera betur ef þótt hefur verið ábótavant. Það er því fáránlegt að hugsa til þess að árið 2016 sé konum ennþá ekki gefin tækifæri hjá svona stóru batteríi eins og Þjóðhátið er.

Nýverið var brotið blað í sögu íslenskrar tónlistar þar sem aldrei fleiri tónlistarkonur áttu lag og texta í úrslitum Söngvakeppni sjónvarpsins. Einnig voru konur í miklum meirihluta þegar kom að flutningi þessara laga. Það þarf því ekki að efast um færni þeirra né vinsældir.

Ég vil því varpa fram nokkrum spurningum:

Eru Eyjamenn illa upplýstir um þær fjölmörgu tónlistarkonur sem Ísland skartar?

Er þessi ákvörðun að ráða nær aldrei konur til þessa verkefna hugsunarleysi eða áhugaleysi?

Hyggst Þjóðhátíðarnefnd snúa sér öðruvísi í þessum málum í framtíðinni eða er þetta hefð sem er komin til að vera?

Ef ykkur vantar aðstoð við að finna færar og góðar tónlistarkonur til að vera frábærir þátttakendur í ykkar annars ágætu hátíð þá vil ég benda á frábær samtök sem heita Kítón, sem stendur fyrir Konur í tónlist. Þar eru meðlimir 246 konur sem starfa við tónlist. Þessi samtök hafa starfað frá árinu 2012 og staðið fyrir margvíslegum viðburðum með kvenhöfundum og flytjendum. Það ætti því ekki að vera vandkvæðum bundið að finna konur sem valda þessu verkefni.

Virðingarfyllst,
Rósa Guðrún Sveinsdóttir
tónlistarmaður og tónskáld

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing